Síðan gengur hann að hitta Kjartan frænda sinn og mælti: "Nú er eg búinn til
ferðar og mundi eg bíða þín hinn næsta vetur ef að sumri væri lauslegra um
þína ferð en nú. En vér þykjumst hitt skilja að konungur vill fyrir engan
mun þig lausan láta en höfum það fyrir satt að þú munir fátt það er á
Íslandi er til skemmtanar þá er þú situr á tali við Ingibjörgu
konungssystur."
Hún var þá með hirð Ólafs konungs og þeirra kvenna fríðust er þá voru í
landi.
Kjartan svarar: "Haf ekki slíkt við en bera skaltu frændum vorum kveðju mína
og svo vinum."
42. kafli - Af þeim Kjartani og Bolla
Eftir það skiljast þeir Kjartan og Bolli.
Gissur og Hjalti sigla af Noregi og verða vel reiðfara, koma að þingi í
Vestmannaeyjar og fara til meginlands, eiga þar stefnur og tal við frændur
sína. Síðan fara þeir til alþingis og töldu trú fyrir mönnum, bæði langt
erindi og snjallt, og tóku þá allir menn trú á Íslandi. Bolli reið í
Hjarðarholt af þingi með Ólafi frænda sínum. Tók hann við honum með mikilli
blíðu.
Bolli reið til Lauga að skemmta sér þá er hann hafði litla hríð verið heima.
Var honum þar vel fagnað. Guðrún spurði vandlega um ferðir hans en því næst
að Kjartani.
Bolli leysti ofléttlega úr því öllu er Guðrún spurði, kvað allt tíðindalaust
um ferðir sínar "en það er kemur til Kjartans þá er það með miklum ágætum að
segja satt frá hans kosti því að hann er í hirð Ólafs konungs og metinn þar
umfram hvern mann. En ekki kemur mér að óvörum þó að hans hafi hér í landi
litlar nytjar hina næstu vetur."
Guðrún spyr þá hvort nokkuð héldi til þess annað en vinátta þeirra konungs.
Bolli segir hvert orðtak manna var á um vináttu þeirra Kjartans og
Ingibjargar konungssystur og kvað það nær sinni ætlan að konungur mundi
heldur gifta honum Ingibjörgu en láta hann lausan ef því væri að skipta.

Fred & Grace Hatton
Hawley, Pa.