Nú er að segja frá ferð Kolfinns. Hann var sár mjög sem sagt var. Ár stórar
voru á leið hans. En er hann kom af Leiruvogsá þá gerði honum kalt mjög og
stirðnaði hann. Frost var á nokkuð.
Maður hét Korpúlfur. Hann bjó á Korpúlfsstöðum. Hann var gamall maður og
kallaður heldur forn í brögðum. Son átti hann þann er Grímur hét. Hann var
ungur og frálegt mannsefni. Korpúlfur var móðurbróðir Kolfinns. Þangað sneri
Kolfinnur sinni ferð og fékk þar góðar viðtökur. Batt Korpúlfur sár hans.
Dvaldist Kolfinnur þar um hríð en sendi móður sinni orð hvað hann dvaldi.
Þenna sama morgun sem Örn var veginn kom Esja snemma til fóstra síns. Hann
fagnaði henni vel og spurði að tíðindum.
Esja sagði honum víg Arnar austmanns og alla atburði þá er þar urðu: "Nú vil
eg að þú breytir búnaði þínum. Hefi eg hér nú loðkápu er eg vil að þú berir.
Skyrta er hér annað klæði. Það þykir mér líkara að hún slitni ekki skjótt
hvorki fyrir vopnum né fyrnsku. Sax er hér hinn þriðji gripur. Þess væntir
mig að það nemi hvergi í höggi stað því að þú munt nú skjótt verða að reyna
hversu þér bíta vopnin."
Búi kvað hana ráða skyldu. Búi hélt ferðum sínum í Kollafjörð. Var nú engi
þröng á palli hjá Ólöfu. Jafnt lét hún til Búa nú sem fyrr.
Þá er Kolfinnur var gróinn sára sinna sagði hann Korpúlfi frænda sínum að
hann vill finna móður sína.
Korpúlfur bað hann því ráða "en því vil eg ráða að þú hafir eigi lengur
tötra þessa." sagði Korpúlfur, "vil eg að þú hafir héðan góð klæði og vopn
er eg vil gefa þér. Muntu þeirra brátt þurfa. Þar með vil eg gefa þér Grím
son minn til fylgdar og föruneytis."
Kolfinnur kvað svo vera skyldu.
Eftir það fóru þeir frændur til Vatns að finna Þorgerði. Varð hún þeim fegin
og spurði hvað Kolfinnur vildi að hafast.