En þó voru þeir miklu fleiri er í móti mæltu og gerðist þá trautt óhætt með
heiðnum mönnum og kristnum. Gerðu höfðingjar ráð sitt að þeir mundu drepa
Þangbrand og þá menn er honum vildu veita forstoð. Fyrir þessum ófriði stökk
Þangbrandur til Noregs og kom á fund Ólafs konungs og sagði honum hvað til
tíðinda hafði borið í sinni ferð og kvaðst það hyggja að eigi mundi kristni
við gangast á Íslandi. Konungur verður þessu reiður mjög og kvaðst það ætla
að margir Íslendingar mundu kenna á sínum hlut nema þeir riðu sjálfir á vit
sín.
Það sama sumar varð Hjalti Skeggjason sekur á þingi um goðgá. Runólfur
Úlfsson sótti hann, er bjó í Dal undir Eyjafjöllum, hinn mesti höfðingi. Það
sumar fór Gissur utan og Hjalti með honum, taka Noreg og fara þegar á fund
Ólafs konungs. Konungur tekur þeim vel og kvað þá hafa vel úr ráðið og bauð
þeim með sér að vera og það þiggja þeir. Þá hafði Svertingur son Runólfs úr
Dal verið í Noregi um veturinn og ætlaði til Íslands um sumarið. Flaut þá
skip hans fyrir bryggjum albúið og beið byrjar. Konungur bannaði honum
brottferð, kvað engi skip skyldu ganga til Íslands það sumar. Svertingur
gekk á konungs fund og flutti mál sitt, bað sér orlofs og kvað sér miklu
máli skipta að þeir bæru eigi farminn af skipinu.
Konungur mælti og var þá reiður: "Vel er að þar sé son blótmannsins er honum
þykir verra."
Og fór Svertingur hvergi.
Var þann vetur allt tíðindalaust.
Um sumarið eftir sendi konungur þá Gissur hvíta og Hjalta Skeggjason til
Íslands að boða trú enn af nýju en hann tók fjóra menn að gíslum eftir:
Kjartan Ólafsson, Halldór son Guðmundar hins ríka og Kolbein son Þórðar
Freysgoða og Sverting son Runólfs úr Dal. Þá ræðst og Bolli til farar með
þeim Gissuri og Hjalta.

Fred & Grace Hatton
Hawley, Pa.