41. kafli - Af Kálfi Ásgeirssyni
Kálfur Ásgeirsson gengur til fundar við Kjartan og spyr hvað hann ætlaði
ráða sinna um sumarið.
Kjartan svarar: "Það ætlaði eg helst að við mundum halda skipi okkru til
Englands því að þangað er nú góð kaupstefna kristnum mönnum. En þó vil eg
finna konung áður en eg ráði þetta til staðar því að hann tók lítt á um ferð
mína þá er okkur varð um rætt á vori."
Síðan gekk Kálfur á brott en Kjartan til máls við konung og fagnar honum
vel. Konungur tók honum með blíðu og spurði hvað í tali hefði verið með þeim
félögum. Kjartan segir hvað þeir hefðu helst ætlað en kvað þó það sitt
erindi til konungs að biðja sér orlofs um sína ferð.
Konungur svarar: "Þann kost mun eg þér gera á því Kjartan að þú farir til
Íslands út í sumar og brjótir menn til kristni þar annaðhvort með styrk eða
ráðum. En ef þér þykir sú för torsóttleg þá vil eg fyrir engan mun láta
hendur af þér því að eg virði að þér sé betur hent að þjóna tignum mönnum
heldur en gerast hér að kaupmanni."
Kjartan kaus heldur að vera með konungi en fara til Íslands og boða þeim
trúna, kvaðst eigi deila vilja ofurkappi við frændur sína: "Er það og líkara
um föður minn og aðra höfðingja þá sem frændur mínir eru nánir að þeir séu
eigi að strangari í að gera þinn vilja að eg sé í yðru valdi í góðum
kostum."
Konungur segir: "Þetta er bæði kjörið hyggilega og mikilmannlega."
Konungur gaf Kjartani öll klæði nýskorin af skarlati. Sömdu honum þau því að
það sögðu menn að þeir hafi jafnmiklir menn verið þá er þeir gengu undir
mál, Ólafur konungur og Kjartan.
Ólafur konungur sendi til Íslands hirðprest sinn er Þangbrandur hét. Hann
kom skipi sínu í Álftafjörð og var með Síðu-Halli um veturinn að Þvottá og
boðaði mönnum trú, bæði með blíðum orðum og hörðum refsingum. Þangbrandur vó
tvo menn þá er mest mæltu í móti. Hallur tók trú um vorið og var skírður
þvottdaginn fyrir páska og öll hjón hans og þá lét Gissur hvíti skírast og
Hjalti Skeggjason og margir aðrir höfðingjar.

Fred & Grace Hatton
Hawley, Pa.