Búi kvað hana ráða skyldu.
Eftir um morguninn gekk Búi til leiks í Kollafjörð. Hann kom heldur síð og
var tekið til leiksins. Hinn sama hafði hann búning, gyrt að sér slöngu
sinni. Ólöf sat á palli og Örn stýrimaður á aðra hönd henni og töluðust þau
við. Búi gekk að palli og kippti upp þeim tveim er sátu á aðra hönd Ólöfu.
Síðan settist hann niður og sat þar þann dag, gekk heim um kveldið í helli
sinn. Svo breytti hann annan dag og hinn þriðja. Örn austmaður hélt hætti
sínum en hvorgi talaði svo við Ólöfu að eigi heyrði annar.

7. kafli
Nú er þar til að taka er Þorgerður húsfreyja var að Vatni. Hún kom í eldhús
um dag. Þar lá Kolfinnur son hennar og rétti býfur helsti langar.
Hún mælti: "Mikið má skilja," sagði hún, "til hvers menn eru fæddir í
heiminn og að hverju getið skal verða. Þeir sitja tveir menn í Kollafirði og
keppast um Ólöfu hina vænu og mörg karlmannleg brögð eru frá þeim sögð. Nú
ganga þangað allir ungir menn til leika en þú ert sú vanmenna að þú liggur í
eldgrófum til hrellingar þinni móður og væri betra að þú værir dauður en
vita slíka skömm í ætt sinni."
Kolfinnur segir: "Áköf ertu nú móðir og mun brátt betur."
Þorgerður snýr á burt.
Litlu síðar rís Kolfinnur upp og gengur út og litast um, sér að ekki er
framorðið. Kolfinnur var svo búinn að hann var í kollhettu og hafði kneppt
blöðum milli fóta sér. Hann hafði hökulbrækur og kálfskinnskó loðna á fótum.

Fred & Grace Hatton
Hawley, Pa.