Margir menn eggjuðu konung er stund var í milli að nauðga þeim Kjartani til
trúarinnar og þótti óráðlegt að hafa svo marga heiðna menn nær sér. Konungur
svarar reiðulega, kvaðst það hyggja að margir mundu þeir kristnir er eigi
mundu þeir jafnháttagóðir sem Kjartan eða sveit hans "og skal slíkra manna
lengi bíða."
Konungur lætur margt nytsamlegt vinna þann vetur. Lætur hann kirkju gera og
auka mjög kaupstaðinn. Sú kirkja var ger að jólum. Þá mælti Kjartan að þeir
mundu ganga svo nær kirkju að þeir mættu sjá atferði siðar þess er kristnir
menn höfðu. Tóku margir undir og sögðu það vera mundu mikla skemmtan. Gengur
Kjartan nú með sína sveit og Bolli. Þar er og Hallfreður í för og margt
manna af Íslendingum. Konungur talaði trú fyrir mönnum, bæði langt erindi og
snjallt, og gerðu kristnir menn góðan róm að hans máli. En er þeir Kjartan
voru gengnir í herbergi sín tekst umræða mikil hvernig þeim hefði á litist
konunginn nú er kristnir menn kalla næst hinni mestu hátíð "því að konungur
sagði svo að vér máttum heyra að sá höfðingi hafi í nótt borinn verið er vér
skulum nú á trúa ef vér gerum eftir því sem konungur býður oss."
Kjartan segir: "Svo leist mér vel á konung hið fyrsta sinn er eg sá hann að
eg fékk það þegar skilt að hann var hinn mesti ágætismaður og það hefir
haldist jafnan síðan er eg hefi hann á mannfundum séð. En miklu best leist
mér þó í dag á hann og öll ætla eg oss þar við liggja vor málskipti að vér
trúum þann vera sannan guð sem konungur býður og fyrir engan mun má konungi
nú tíðara til vera að eg taki við trúnni en mér er að láta skírast og það
eina dvelur er eg geng nú eigi þegar á konungs fund er framorðið er dags því
að nú mun konungur yfir borðum vera en sá dagur mun dveljast er vér
sveitungar látum allir skírast."