Þá svarar Kjartan: "Það munuð þér ætla að sá muni eigi einurð til hafa við
að ganga er það hefir mælt. En hér máttu þann sjá."
"Sjá má eg þig," segir konungur, "og eigi smáráðan. En eigi mun þér þess
auðið verða að standa yfir höfuðsvörðum mínum og ærna hefir þú sök til þess
þótt þú heitaðist eigi við fleiri konunga inni að brenna fyrir þá sök er þér
væri hið betra kennt. En fyrir það er eg vissi eigi hvort hugur fylgdi máli
þínu en drengilega við gengið þá skal þig eigi af lífi taka fyrir þessa sök.
Kann og vera að þú haldir því betur trúna sem þú mælir meir í móti henni en
aðrir. Kann eg og það að skilja að það mun skipshöfnum skipta að þann dag
munu við trú taka er þú lætur ónauðigur skírast. Þykir mér og á því líkindi
að frændur yðrir og vinir muni mjög á það hlýða hvað þér talið fyrir þeim er
þér komið út til Íslands. Er það og nær mínu hugboði að þú Kjartan hafir
betra sið er þú siglir af Noregi en þá er þú komst hingað. Farið nú í friði
og í griðum hvert er þér viljið af þessum fundi. Skal eigi pynda yður til
kristni að sinni því að guð mælir svo að hann vill að engi komi nauðigur til
hans."
Var góður rómur ger að máli konungs og þó mest af kristnum mönnum. En
heiðnir menn mátu við Kjartan að hann skyldi svara sem hann vildi.
Þá mælti Kjartan: "Þakka viljum vér yður konungur er þér gefið oss góðan
frið og þannig máttu oss mest teygja að taka við trúnni að gefa oss upp
stórsakir en mælir til alls í blíðu þar sem þér hafið þann dag allt ráð vort
í hendi er þér viljið. Og það ætla eg mér að taka því aðeins við trú í
Noregi að eg meti lítils Þór hinn næsta vetur er eg kem til Íslands."
Þá segir konungur og brosti að: "Það sér á yfirbragði Kjartans að hann
þykist eiga meira traust undir afli sínu og vopnum heldur en þar sem er Þór
og Óðinn."
Síðan var slitið þinginu.

Fred & Grace Hatton
Hawley, Pa.