Þorgrímur kvað svo vera skyldu. Þorgrímur gekk þá inn og þeir fimm. Esja
stóð í dyrum og kvaddi til griðkonu að bera ljós fyrir þeim. En er þeir
Þorgrímur komu inn þá voru húsin full af reyk og af svo mikilli remmu að
varla máttu þeir draga öndina nema þeir byrgðu fötum yfir höfuð sér. En
heimakonu tókst seint að kveikja ljósið en þó varð það um síðir að það var
borið fyrir þeim að kalla. En þeir voru þó miklu skemur inni og fóru óvíðara
og forvitnuðust færra en þeir mundu ef nokkurum væri inni vært. Eftir það
komu þeir út og kváðu þar öngum manni inn kvæmt.
Þorgrímur mælti: "Það höfum vér fyrir satt Esja að þú hafir Búa undan
brugðið. Mundum vér nú gangast nær ef eigi nytir þú föður míns og þess að
mér þykir til einskis að taka þig höndum."
Esja mælti: "Eigi mun Búi hér finnast því að hann hefir hér ekki í dag
komið."
Eftir það reið Þorgrímur í brott og heimleiðis.
Hann mælti þá til sinna manna: "Miklu liggur mér þetta allt saman í meira
rúmi en eigi verði nokkur niður að koma mín reiði. Skal fara í Brautarholt
að drepa Andríð."
Helgi og Vakur sögðu það illt verk að drepa hann gamlan. Þorgrímur kveðst
það nú gera skyldu.
Ríða þeir þá í Brautarholt. Var þar engi vörn fyrir því að Andríður var
tekinn í öndugi sínu og leiddur út. Þuríður húsfreyja bauð fé fyrir Andríð
bónda sinn en það tjáði ekki. Fékk Þorgrímur til mann að drepa hann og varð
hann drengilega við dauða sinn. Eftir það ríða þeir á braut.