Þetta sama kveld sendir konungur menn til herbergis Íslendinga og bað þá
verða vísa hvað þeir töluðu. Þeir gera svo. Var þar inn að heyra glaumur
mikill.
Þá tók Kjartan til orða og mælti til Bolla: "Hversu fús ertu frændi að taka
við trú þeirri er konungur býður?"
"Ekki er eg þess fús," svarar Bolli, "því að mér líst siður þeirra veiklegur
mjög."
Kjartan spyr: "Þótti yður konungurinn í engum hótum hafa við þá er eigi
vildu undir ganga hans vilja?"
Bolli svarar: "Að vísu þótti oss konungur ganga úr skugga berlega um það að
þeir mundu miklum afarkostum mæta af honum."
"Engis manns nauðungarmaður vil eg vera," segir Kjartan, "meðan eg má upp
standa og vopnum valda. Þykir mér það og lítilmannlegt að vera tekinn sem
lamb úr stekk eða melrakki úr gildru. Þykir mér hinn kostur miklu betri ef
maður skal þó deyja að vinna það nokkuð áður er lengi sé uppi haft síðan."
Bolli spyr: "Hvað viltu gera?"
"Ekki mun eg því leyna," segir Kjartan, "brenna konunginn inni."
"Ekki kalla eg þetta lítilmannlegt," segir Bolli, "en eigi mun þetta
framgengt verða að því er eg hygg. Mun konungur vera giftudrjúgur og
hamingjumikill. Hann hefir og örugg varðhöld dag og nótt."
Kjartan kvað áræðið flestum bila þótt allgóðir karlmenn væru. Bolli kvað það
vant að sjá hverjum hugar þyrfti að frýja. En margir tóku undir að þetta
væri þarfleysutal. Og er konungsmenn höfðu þessa varir orðið þá fóru þeir í
brott og segja konungi þetta tal allt.
Um morguninn eftir vill konungur þing hafa. Er nú til stefnt öllum íslenskum
mönnum. Og er þingið var sett þá stóð konungur upp og þakkaði mönnum
þangaðkomu, þeim er hans vinir vildu vera og við trú höfðu tekið. Hann
heimti til tals við sig Íslendinga. Konungur spyr ef þeir vildu skírn taka.
Þeir ræma það lítt. Konungur segir að þeir mundu þann kost velja sér til
handa er þeim gegndi verr "eða hverjum yðrum þótti það ráðlegast að brenna
mig inni?"

Fred & Grace Hatton
Hawley, Pa.