Þorgrímur sagði annað erindi sitt en eta þar mat: "Viljum vér," sagði hann,
"að þú seljir fram Búa hund fóstra þinn og skulum vér fá honum herfilegan
dauða sem maklegt er."
Esja mælti: "Hvað hefir fóstri minn þess til gert að hann sé dauða verður?"
Þorgrímur segir: "Það mun þér eigi allókunnigt. Kanntu að láta marga vega.
Hann hefir unnið þau ódæmaverk að því er betur að eigi munu dæmi til
finnast. Hann hefir drepið Þorstein son minn en það þó með að þetta er
lítils vert. Hann hefir brennt upp hofið og goð vor."
Esja mælti: "Þótt Búi fóstri minn væri hér og hefði hann dauðaverk gert þá
mundi eg þér hann aldrei til dauða fram selja. En nú hefir Búi ekki hér
komið síðan gærdag er hann gekk braut."
Þorgrímur mælti: "Vér trúum því eigi að hann sé eigi hér og viljum vér
rannsaka."
Esja mælti: "Finn eg nú það að Helgi bjóla faðir þinn er dauður. Aldrei
mundu hús mín rannsökuð ef hann mætti um mæla. En vera mun sá ríkismunur nú
að þú munt ráða ætla. En ekki skulu að vilja mínum fleiri menn fara um hús
mín en þú við hinn fimmta mann."

Fred & Grace Hatton
Hawley, Pa.