Um daginn fer hún að fé sínu. Kemur þá Stígandi til móts við hana. Hún
fagnar honum vel og býður að skoða í höfði honum. Hann leggur höfuðið í kné
henni og sofnar skjótlega. Þá skreiðist hún undan höfði honum og fer til
móts við þá Ólaf og segir þeim hvar þá var komið. Fara þeir til Stíganda og
ræða um með sér að hann skal eigi fara sem bróðir hans að hann skyldi það
margt sjá er þeim yrði mein að, taka nú belg og draga á höfuð honum.
Stígandi vaknaði við þetta og bregður nú engum viðbrögðum því að margir menn
voru nú um einn. Rauf var á belgnum og getur Stígandi séð öðrum megin í
hlíðina. Þar var fagurt landsleg og grasloðið. En því var líkast sem
hvirfilvindur komi að. Sneri um jörðunni svo að aldregi síðan kom þar gras
upp. Þar heitir nú á Brennu. Síðan berja þeir Stíganda grjóti í hel og þar
var hann dysjaður. Ólafur efnir vel við ambáttina og gaf henni frelsi og fór
hún heim í Hjarðarholt.
Hallbjörn slíkisteinsauga rak upp úr brimi litlu síðar en honum var drekkt.
Þar heitir Knarrarnes sem hann var kasaður og gekk hann aftur mjög.
Sá maður er nefndur er Þorkell skalli hét. Hann bjó í Þykkvaskógi á
föðurleifð sinni. Hann var fullhugi mikill og rammur að afli. Eitt kveld var
vant kýr í Þykkvaskógi. Fór Þorkell að leita og húskarl hans með honum. Það
var eftir dagsetur en tunglskin var á. Þorkell mælti að þeir mundu skipta
með sér leitinni. Og er Þorkell var einn saman staddur þá þóttist hann sjá á
holtinu fyrir sér kú. Og er hann kemur að þá var það Slíkisteinsauga en eigi
kýr. Þeir runnust á allsterklega. Fór Hallbjörn undan og er Þorkel varði
minnst þá smýgur hann niður í jörðina úr höndum honum. Eftir það fór Þorkell
heim. Húskarlinn var heim kominn og hafði hann fundið kúna. Ekki varð síðan
mein að Hallbirni.
Þorbjörn skrjúpur var þá andaður og svo Melkorka. Þau liggja bæði í kumli í
Laxárdal en Lambi son þeirra bjó þar eftir. Hann var garpur mikill og hafði
mikið fé. Meira var Lambi virður af mönnum en faðir hans fyrir sakir
móðurfrænda sinna. Vel var í frændsemi þeirra Ólafs.

Fred & Grace Hatton
Hawley, Pa.