Þá mælti Hallbjörn: "Ekki var oss það tímadagur er vér frændur komum á
Kambsnes þetta til móts við Þorleik. Það mæli eg um," segir hann, "að
Þorleikur eigi þar fá skemmtanardaga héðan í frá og öllum verði þungbýlt
þeim sem í hans rúm setjast."
Mjög þykir þetta atkvæði á hafa hrinið.
Síðan drekktu þeir honum og reru til lands.
Litlu síðar fer Hrútur á fund Ólafs frænda síns og segir honum að hann vill
eigi hafa svo búið við Þorleik og bað hann fá sér menn til að sækja heim
Þorleik.
Ólafur svarar: "Þetta samir eigi að þér frændur leggist hendur á. Hefir
þetta tekist ógiftusamlega Þorleiki til handar. Viljum vér heldur leita um
sættir með ykkur. Hefir þú oft þíns hluta beðið vel og lengi."
Hrútur segir: "Ekki er slíks að leita. Aldrei mun um heilt með okkur gróa og
það mundi eg vilja að eigi byggjum við báðir lengi í Laxárdal héðan í frá."
Ólafur svarar: "Eigi mun þér það verða hlýðisamt að ganga framar á hendur
Þorleiki en mitt leyfi er til. En ef þú gerir það þá er eigi ólíklegt að
mæti dalur hóli."
38. kafli - Af Stíganda
Nú er að segja frá Stíganda. Hann gerðist útilegumaður og illur viðureignar.
Þórður hét maður. Hann bjó í Hundadal. Hann var auðigur maður og ekki
mikilmenni. Það varð til nýlundu um sumarið í Hundadal að fé nytjaðist illa
en kona gætti fjár þar. Það fundu menn að hún varð gripaauðig og hún var
löngum horfin svo að menn vissu eigi hvar hún var. Þórður bóndi lætur henni
nauðga til sagna og er hún verður hrædd þá segir hún að maður kemur til
fundar við hana, "sá er mikill," segir hún, "og sýnist mér vænlegur."
Þá spyr Þórður hversu brátt sá maður mundi koma til fundar við hana. Hún
kvaðst vænta að það mundi brátt vera.
Eftir þetta fer Þórður á fund Ólafs og segir honum að Stígandi mun eigi
langt þaðan í brott, biður hann til fara með sína menn og ná honum. Ólafur
bregður við skjótt og fer í Hundadal. Er þá ambáttin heimt til tals við
hann. Spyr þá Ólafur hvar bæli Stíganda væri. Hún kvaðst það eigi vita.
Ólafur bauð að kaupa að henni ef hún kæmi Stíganda í færi við þá. Þessu
kaupa þau saman.