Eldgrímur svarar: "Ekki skal þig því leyna. En veit eg frændsemi með ykkur
Þorleiki. En svo er eg eftir hrossunum kominn að eg ætla honum þau aldrei
síðan. Hefi eg og það efnt sem eg hét honum á þingi að eg hefi ekki með
fjölmenni farið eftir hrossunum."
Hrútur segir: "Engi er það frami þótt þú takir hross í brott en Þorleikur
liggi í rekkju sinni og sofi. Efnir þú það þá best er þið urðuð á sáttir ef
þú hittir hann áður þú ríður úr héraði með hrossin."
Eldgrímur mælti: "Ger þú Þorleik varan við ef þú vilt því að þú mátt sjá að
eg hefi svo heiman búist að mér þótti vel að fund okkarn Þorleiks bæri
saman" og hristi krókaspjótið er hann hafði í hendi.
Hann hafði og hjálm á höfði og var gyrður sverði, skjöld á hlið. Hann var í
brynju.
Hrútur mælti: "Heldur mun eg annars á leita en fara á Kambsnes því að mér er
fótur þungur. En eigi mun eg láta ræna Þorleik ef eg hefi föng á því þótt
eigi sé margt í frændsemi okkarri."
Eldgrímur mælti: "Er eigi það að þú ætlir að taka af mér hrossin?"
Hrútur svarar: "Gefa vil eg þér önnur stóðhross til þess að þú látir þessi
laus þótt þau séu eigi jafngóð sem þessi."
Eldgrímur mælti: "Besta talar þú Hrútur en með því að eg hefi komið höndum á
hrossin Þorleiks þá muntu þau hvorki plokka af mér með mútugjöfum né
heitan."
Þá svarar Hrútur: "Það hygg eg að þú kjósir þann hlut til handa báðum okkur
er verr muni gegna."
Eldgrímur vill nú skilja og hrökkvir hestinn. En er Hrútur sá það reiddi
hann upp bryntröllið og setur milli herða Eldgrími svo að þegar slitnaði
brynjan fyrir en bryntröllið hljóp út um bringuna. Féll Eldgrímur dauður af
hestinum sem von var. Síðan huldi Hrútur hræ hans. Þar heitir Eldgrímsholt,
suður frá Kambsnesi.
Eftir þetta ríður Hrútur ofan á Kambsnes og segir Þorleiki þessi tíðindi.
Hann brást reiður við og þóttist vera mjög svívirður í þessu tilbragði en
Hrútur þóttist hafa sýnt við hann mikinn vinskap. Þorleikur kvað það bæði
vera að honum hafði illt til gengið enda mundi eigi gott í móti koma. Hrútur
kvað hann mundu því ráða. Skiljast þeir með engri blíðu. Hrútur var þá
áttræður er hann drap Eldgrím og þótti hann mikið hafa vaxið af þessu verki.
Ekki þótti Þorleiki Hrútur því betra af verður að hann væri miklaður af
þessu verki. Þóttist hann glöggt skilja að hann mundi hafa borið af Eldgrími
ef þeir hefðu reynt með sér svo lítið sem fyrir hann lagðist.

Fred & Grace Hatton
Hawley, Pa.