Þá mælti Kotkell: "Það horfir þó nokkuð annan veg við um sakir við Guðrúnu
og bræður hennar en þér hefir sagt verið. Hafa menn ausið hrópi á oss fyrir
enga sök og þigg stóðhrossin fyrir þessar sakir. Ganga og þær einar sögur
frá þér að vér munum eigi uppi orpin fyrir sveitarmönnum hér ef vér höfum
þitt traust."
Þorleikur slæst nú í málinu og þóttu honum fögur hrossin en Kotkell flutti
kænlega málið. Þá tók Þorleikur við hrossunum. Hann fékk þeim bústað á
Leiðólfsstöðum í Laxárdal. Hann birgði þau og um búfé. Þetta spyrja
Laugamenn og vilja synir Ósvífurs þegar gera til þeirra Kotkels og sona
hans.
Ósvífur mælti: "Höfum vér nú ráð Snorra goða og spörum þetta verk öðrum því
að skammt mun líða áður búar Kotkels munu eiga spánnýjar sakir við þá og mun
sem vert er Þorleiki mest mein að þeim. Munu þeir margir hans óvinir af
stundu er hann hefir áður haft stundan af. En eigi mun eg letja yður að gera
slíkt mein þeim Kotkatli sem yður líkar ef eigi verða aðrir til að elta þau
úr héraði eða taka af lífi með öllu um það er þrír vetur eru liðnir."
Guðrún og bræður hennar sögðu svo vera skyldu. Ekki unnust þau Kotkell mjög
fyrir en hvorki þurftu þau um veturinn að kaupa hey né mat og var sú byggð
óvinsæl. Eigi treystust menn að raska kosti þeirra fyrir Þorleiki.

37. kafli
Það var eitt sumar á þingi er Þorleikur sat í búð sinni að maður einn mikill
gekk í búðina inn. Sá kvaddi Þorleik en hann tók kveðju þessa manns og
spurði hver hann væri eða hvað hann héti. Hann kvaðst Eldgrímur heita og búa
í Borgarfirði á þeim bæ er heita Eldgrímsstaðir en sá bær er í dal þeim er
skerst vestur í fjöll milli Múla og Grísartungu. Sá er nú kallaður
Grímsdalur.
Þorleikur segir: "Heyrt hefi eg þín getið að því að þú sért ekki
lítilmenni."
Eldgrímur mælti: "Það er erindi mitt hingað að eg vil kaupa að þér
stóðhrossin þau hin dýru er Kotkell gaf þér í fyrra sumar."

Fred & Grace Hatton
Hawley, Pa.