36. kafli - Af Kotkeli og Grímu
Þessi tíðindi spyrjast víða og mælast illa fyrir. Þóttu það ólífismenn er
slíka fjölkynngi frömdu sem þau Kotkell höfðu þá lýst. Mikið þótti Guðrúnu
að um líflát Þórðar og var hún þá eigi heil og mjög framað. Guðrún fæddi
svein. Sá var vatni ausinn og kallaður Þórður.
Í þenna tíma bjó Snorri goði að Helgafelli. Hann var frændi Ósvífurs og vin.
Áttu þau Guðrún þar mikið traust. Þangað fór Snorri goði að heimboði. Þá
tjáði Guðrún þetta vandkvæði fyrir Snorra en hann kvaðst mundu veita þeim að
málum þá er honum sýndist en bauð Guðrúnu barnfóstur til hugganar við hana.
Þetta þá Guðrún og kvaðst hans forsjá hlíta mundu. Þessi Þórður var kallaður
köttur, faðir Stúfs skálds.
Síðan fer Gestur Oddleifsson á fund Hallsteins goða og gerði honum tvo
kosti, að hann skyldi reka í brott þessa fjölkunnigu menn ella kvaðst hann
mundu drepa þá "og er þó ofseinað."
Hallsteinn kaus skjótt og bað þau heldur í brott fara og nema hvergi staðar
fyrir vestan Dalaheiði og kvað réttara að þau væru drepin. Síðan fóru þau
Kotkell í brott og höfðu eigi meira fé en stóðhross fjögur. Var hesturinn
svartur. Hann var bæði mikill og vænn og reyndur að vígi. Ekki er getið um
ferð þeirra áður þau koma á Kambsnes til Þorleiks Höskuldssonar. Hann falar
að þeim hrossin því að hann sá að það voru afreksgripir.
Kotkell svarar: "Gera skal þér kost á því. Tak við hrossunum en fá mér
bústað nokkurn hér í nánd þér."
Þorleikur mælti: "Munu þá eigi heldur dýr hrossin því að eg hefi það spurt
að þér munuð eiga heldur sökótt hér í héraði?"
Kotkell svarar: "Þetta muntu mæla til Laugamanna."
Þorleikur kvað það satt vera.