Sveinninn heitir að gera svo sem hún mælti. En um kveldið er smalamaður kom
heim spyr Auður tíðinda.
Smalamaðurinn svarar: "Spurt hefi eg þau tíðindi er þér munu þykja góð að nú
er breitt hvílugólf milli rúma þeirra Þórðar og Guðrúnar því að hún er í
seli en hann heljast á skálasmíð og eru þeir Ósvífur tveir að veturhúsum."
"Vel hefir þú njósnað," segir hún, "og haf söðlað hesta tvo er menn fara að
sofa."
Smalasveinn gerði sem hún bauð og nokkuru fyrir sólarfall sté Auður á bak og
var hún þá að vísu í brókum. Smalasveinn reið öðrum hesti og gat varla fylgt
henni, svo knúði hún fast reiðina. Hún reið suður yfir Sælingsdalsheiði og
nam eigi staðar fyrr en undir túngarði að Laugum. Þá sté hún af baki en bað
smalasveininn gæta hestanna meðan hún gengi til húss. Auður gekk að durum og
var opin hurð. Hún gekk til eldhúss og að lokrekkju þeirri er Þórður lá í og
svaf. Var hurðin fallin aftur en eigi lokan fyrir. Hún gekk í lokrekkjuna en
Þórður svaf og horfði í loft upp. Þá vakti Auður Þórð en hann snerist á
hliðina er hann sá að maður var kominn. Hún brá þá saxi og lagði á Þórði og
veitti honum áverka mikla og kom á höndina hægri. Varð hann sár á báðum
geirvörtum. Svo lagði hún til fast að saxið nam í beðinum staðar. Síðan gekk
Auður brott og til hests og hljóp á bak og reið heim eftir það. Þórður vildi
upp spretta er hann fékk áverkann og varð það ekki því að hann mæddi
blóðrás. Við þetta vaknaði Ósvífur og spyr hvað títt væri en Þórður kvaðst
orðinn fyrir áverkum nokkurum. Ósvífur spyr ef hann vissi hver á honum hefði
unnið og stóð upp og batt um sár hans. Þórður kvaðst ætla að það hefði Auður
gert. Ósvífur bauð að ríða eftir henni, kvað hana fámenna til mundu hafa
farið og væri henni skapað víti. Þórður kvað það fjarri skyldu fara, sagði
hana slíkt hafa að gert sem hún átti.
Auður kom heim í sólarupprás og spurðu þeir bræður hennar hvert hún hefði
farið. Auður kvaðst farið hafa til Lauga og sagði þeim hvað til tíðinda
hafði gerst í förum hennar. Þeir létu vel yfir og kváðu of lítið mundu að
orðið. Þórður lá lengi í sárum og greru vel bringusárin en sú höndin varð
honum hvergi betri til taks en áður. Kyrrt var nú um veturinn.

Fred & Grace Hatton
Hawley, Pa.