Gestur svarar: "Þarfleysa er að segja það en eigi nenni eg að þegja yfir því
er á þínum dögum mun fram koma. En ekki kemur mér að óvörum þótt Bolli
standi yfir höfuðsvörðum Kjartans og hann vinni sér þá og höfuðbana og er
þetta illt að vita um svo mikla ágætismenn."
Síðan riðu þeir til þings og er kyrrt þingið.
34. kafli - Af Þorvaldi
Þorvaldur hét maður son Halldórs Garpsdalsgoða. Hann bjó í Garpsdal í
Gilsfirði, auðigur maður og engi hetja. Hann bað Guðrúnar Ósvífursdóttur á
alþingi þá er hún var fimmtán vetra gömul. Því máli var eigi fjarri tekið en
þó sagði Ósvífur að það mundi á kostum finna að þau Guðrún voru eigi
jafnmenni. Þorvaldur talaði óharðfærlega, kvaðst konu biðja en ekki fjár.
Síðan var Guðrún föstnuð Þorvaldi og réð Ósvífur einn máldaga og svo var
skilt að Guðrún skyldi ein ráða fyrir fé þeirra þegar er þau koma í eina
rekkju og eiga alls helming hvort er samfarar þeirra væru lengri eða
skemmri. Hann skyldi og kaupa gripi til handa henni svo að engi jafnfjáð
kona ætti betri gripi en þó mætti hann halda búi sínu fyrir þær sakir. Ríða
menn nú heim af þingi. Ekki var Guðrún að þessu spurð og heldur gerði hún
sér að þessu ógetið og var þó kyrrt. Brúðkaup var í Garpsdal að tvímánuði.
Lítt unni Guðrún Þorvaldi og var erfið í gripakaupum. Voru engar gersemar
svo miklar á Vestfjörðum að Guðrúnu þætti eigi skaplegt að hún ætti en galt
fjandskap Þorvaldi ef hann keypti eigi hversu dýrar sem metnar voru.
Þórður Ingunnarson gerði sér dátt við þau Þorvald og Guðrúnu og var þar
löngum og féll þar mörg umræða á um kærleika þeirra Þórðar og Guðrúnar. Það
var eitt sinn að Guðrún beiddi Þorvald gripakaups. Þorvaldur kvað hana ekki
hóf að kunna og sló hana kinnhest.
Þá mælti Guðrún: "Nú gafstu mér það er oss konum þykir miklu skipta að vér
eigum vel að gert en það er litaraft gott og af hefir þú mig ráðið brekvísi
við þig."
Það sama kveld kom Þórður þar. Guðrún sagði honum þessa svívirðing og spurði
hann hverju hún skyldi þetta launa.


Fred & Grace Hatton
Hawley, Pa.