Gestur svarar þessu einu: "Era sjá draumur minni."
Enn mælti Guðrún: "Sá er hinn þriðji draumur minn að eg þóttist hafa
gullhring á hendi og þóttist eg eiga hringinn og þótti mér bættur skaðinn.
Kom mér það í hug að eg mundi þessa hrings lengur njóta en hins fyrra. En
eigi þótti mér þessi gripur því betur sama sem gull er dýrra en silfur.
Síðan þóttist eg falla og vilja styðja mig með hendinni en gullhringurinn
mætti steini nokkurum og stökk í tvo hluti og þótti mér dreyra úr hlutunum.
Það þótti mér líkara harmi en skaða er eg þóttist þá bera eftir. Kom mér þá
í hug að brestur hafði verið á hringnum og þá er eg hugði að brotunum eftir
þá þóttist eg sjá fleiri brestina á og þótti mér þó sem heill mundi ef eg
hefði betur til gætt og var eigi þessi draumur lengri."
Gestur svarar: "Ekki fara í þurrð draumarnir."
Og enn mælti Guðrún: "Sá var hinn fjórði draumur minn að eg þóttist hafa
hjálm á höfði af gulli og mjög gimsteinum settan. Eg þóttist eiga þá
gersemi. En það þótti mér helst að að hann var nokkurs til þungur því að eg
fékk varla valdið og bar eg hallt höfuðið og gaf eg þó hjálminum enga sök á
því og ætlaði ekki að lóga honum. En þó steyptist hann af höfði mér og út á
Hvammsfjörð og eftir það vaknaði eg. Eru þér nú sagðir draumarnir allir."
Gestur svarar: "Glöggt fæ eg séð hvað draumar þessir eru en mjög mun þér
samstaft þykja því að eg mun næsta einn veg alla ráða. Bændur muntu eiga
fjóra og væntir mig þá er þú ert hinum fyrsta gift að það sé þér ekki
girndaráð. Þar er þú þóttist hafa mikinn fald á höfði og þótti þér illa
sama, þar muntu lítið unna honum. Og þar er þú tókst af höfði þér faldinn og
kastaðir á vatnið, þar muntu ganga frá honum. Því kalla menn á sæ kastað er
maður lætur eigu sína og tekur ekki í mót."