32. kafli - Af Ósvífi Helgasyni
Ósvífur hét maður og var Helgason, Óttarssonar, Bjarnarsonar hins austræna,
Ketilssonar flatnefs, Bjarnarsonar bunu. Móðir Ósvífurs hét Niðbjörg, hennar
móðir Kaðlín, dóttir Göngu-Hrólfs Öxna-Þórissonar. Hann var hersir ágætur
austur í Vík. Því var hann svo kallaður að hann átti eyjar þrjár og átta
tigu yxna í hverri. Hann gaf eina eyna og yxnina með Hákoni konungi og varð
sú gjöf allfræg.
Ósvífur var spekingur mikill. Hann bjó að Laugum í Sælingsdal. Laugabær
stendur fyrir sunnan Sælingsdalsá gegnt Tungu. Kona hans hét Þórdís dóttir
Þjóðólfs lága. Óspakur hét son þeirra, annar Helgi, þriðji Vandráður, fjórði
Torráður, fimmti Þórólfur. Allir voru þeir víglegir menn.
Guðrún hét dóttir þeirra. Hún var kvenna vænst er upp óxu á Íslandi, bæði að
ásjónu og vitsmunum. Guðrún var kurteis kona svo að í þann tíma þóttu allt
barnavípur það er aðrar konur höfðu í skarti hjá henni. Allra kvenna var hún
kænst og best orði farin. Hún var örlynd kona.
Sú kona var á vist með Ósvífri er Þórhalla hét og var kölluð hin málga. Hún
var nokkuð skyld Ósvífri. Tvo sonu átti hún. Hét annar Oddur en annar
Steinn. Þeir voru knálegir menn og voru mjög grjótpálar fyrir búi Ósvífurs.
Málgir voru þeir sem móðir þeirra en óvinsælir. Þó höfðu þeir mikið hald af
sonum Ósvífurs.
Í Tungu bjó sá maður er Þórarinn hét, son Þóris sælings. Hann var góður
búandi. Þórarinn var mikill maður og sterkur. Hann átti lendur góðar en
minna lausafé. Ósvífur vildi kaupa að honum lendur því að hann hafði
landeklu en fjölda kvikfjár. Þetta fór fram að Ósvífur keypti að Þórarni af
landi hans allt frá Gnúpuskörðum og eftir dalnum tveim megin til Stakkagils.
Það eru góð lönd og kostig. Hann hafði þangað selför. Jafnan hafði hann
hjónmargt. Var þeirra ráðahagur hinn virðulegsti.
Vestur í Saurbæ heitir bær á Hóli. Þar bjuggu mágar þrír. Þorkell hvelpur og
Knútur voru bræður og ættstórir menn. Mágur þeirra átti bú með þeim sá er
Þórður hét. Hann var kenndur við móður sína og kallaður Ingunnarson. Faðir
Þórðar var Glúmur Geirason. Þórður var vænn maður og vasklegur, ger að sér
og sakamaður mikill. Þórður átti systur þeirra Þorkels er Auður hét. Ekki
var hún væn kona né gervileg. Þórður unni henni lítið. Hafði hann mjög
slægst til fjár því að þar stóð auður mikill saman. Var bú þeirra gott síðan
Þórður kom til ráða með þeim.