Stíga þeir Ólafur á skip og sigla í haf. Þeim byrjaði vel og tóku
Breiðafjörð, bera nú bryggjur á land í Laxárósi. Lætur Ólafur bera viðu af
skipi og setur upp skipið í hróf það er faðir hans hafði gera látið. Ólafur
bauð Geirmundi til sín.
Það sumar lét Ólafur gera eldhús í Hjarðarholti, meira og betra en menn
hefðu fyrr séð. Voru þar markaðar ágætar sögur á þilviðinum og svo á
ræfrinu. Var það svo vel smíðað að þá þótti miklu skrautlegra er eigi voru
tjöldin uppi.
Geirmundur var fáskiptinn hversdagla, óþýður við flesta. En hann var svo
búinn jafnan að hann hafði skarlatskyrtil rauðan og gráfeld ystan og
bjarnskinnshúfu á höfði, sverð í hendi. Það var mikið vopn og gott,
tannhjölt að. Ekki var þar borið silfur á en brandurinn var hvass og beið
hvergi ryð á. Þetta sverð kallaði hann Fótbít og lét það aldregi hendi firr
ganga.
Geirmundur hafði litla hríð þar verið áður hann felldi hug til Þuríðar
dóttur Ólafs og vekur hann bónorð við Ólaf en hann veitti afsvör. Síðan bar
Geirmundur fé undir Þorgerði til þess að hann næði ráðinu. Hún tók við fénu
því að eigi var smám fram lagt.
Síðan vekur Þorgerður þetta mál við Ólaf. Hún segir og sína ætlan að dóttir
þeirra muni eigi betur verða gefin "því að hann er garpur mikill, auðigur og
stórlátur."
Þá svarar Ólafur: "Eigi skal þetta gera í móti þér heldur en annað þótt eg
væri fúsari að gifta Þuríði öðrum manni."
Þorgerður gengur í brott og þykir gott orðið sitt erindi, sagði nú svo
skapað Geirmundi. Hann þakkaði henni sín orð og tillög og skörungsskap.
Vekur nú Geirmundur bónorðið í annað sinn við Ólaf og var það nú auðsótt.
Eftir það fastnar Geirmundur sér Þuríði og skal boð vera að áliðnum vetri í
Hjarðarholti. Það boð var allfjölmennt því að þá var algert eldhúsið. Þar
var að boði Úlfur Uggason og hafði ort kvæði um Ólaf Höskuldsson og um sögur
þær er skrifaðar voru á eldhúsinu og færði hann þar að boðinu. Þetta kvæði
er kallað Húsdrápa og er vel ort. Ólafur launaði vel kvæðið. Hann gaf og
stórgjafir öllu stórmenni er hann hafði heim sótt. Þótti Ólafur vaxið hafa
af þessi veislu.

Fred & Grace Hatton
Hawley, Pa.