Og er Ólafur lauk sínu máli þá var góður rómur ger og þótti þetta erindi
stórum skörulegt. Og er Ólafur kom heim til búðar sagði hann bræðrum sínum
þessa tilætlan. Þeim fannst fátt um og þótti ærið mikið við haft.
Eftir þingið ríða þeir bræður heim. Líður nú sumarið. Búast þeir bræður við
veislunni. Leggur Ólafur til óhneppilega að þriðjungi og er veislan búin með
hinum bestu föngum. Var mikið til aflað þessar veislu því að það var ætlað
að fjölmennt mundi koma.
Og er að veislu kemur er það sagt að flestir virðingamenn koma þeir sem
heitið höfðu. Var það svo mikið fjölmenni að það er sögn manna flestra að
eigi skyrti níu hundruð. Þessi hefir önnur veisla fjölmennust verið á
Íslandi en sú önnur er Hjaltasynir gerðu erfi eftir föður sinn. Þar voru
tólf hundruð. Þessi veisla var hin skörulegsta að öllu og fengu þeir bræður
mikinn sóma og var Ólafur mest fyrirmaður. Ólafur gekk til móts við báða
bræður sína um fégjafir. Var og gefið öllum virðingamönnum.
Og er flestir menn voru í brottu farnir þá víkur Ólafur til máls við Þorleik
bróður sinn og mælti: "Svo er frændi sem þér er kunnigt að með okkur hefir
verið ekki margt. Nú vildi eg til þess mæla að við betruðum frændsemi okkra.
Veit eg að þér mislíkar er eg tók við gripum þeim er faðir minn gaf mér á
deyjanda degi. Nú ef þú þykist af þessu vanhaldinn þá vil eg það vinna til
heils hugar þíns að fóstra son þinn og er sá kallaður æ minni maður er öðrum
fóstrar barn."
Þorleikur tekur þessu vel og sagði sem satt er að þetta er sæmilega boðið.
Tekur nú Ólafur við Bolla syni Þorleiks. Þá var hann þrevetur. Skiljast þeir
nú með hinum mesta kærleik og fer Bolli heim í Hjarðarholt með Ólafi.
Þorgerður tekur vel við honum. Fæðist Bolli þar upp og unnu þau honum eigi
minna en sínum börnum.
28. kafli - Af Ólafi og Þorgerði
Ólafur og Þorgerður áttu son. Sá sveinn var vatni ausinn og nafn gefið. Lét
Ólafur kalla hann Kjartan eftir Mýrkjartani móðurföður sínum. Þeir Bolli og
Kjartan voru mjög jafngamlir. Enn áttu þau fleiri börn. Son þeirra hét
Steinþór og Halldór, Helgi, og Höskuldur hét hinn yngsti son Ólafs. Bergþóra
hét dóttir þeirra Ólafs og Þorgerðar, og Þorbjörg. Öll voru börn þeirra
mannvæn er þau óxu upp.