25. kafli - Af sonum Höskuldar
Nú er að segja frá sonum Höskulds. Þorleikur Höskuldsson hafði verið
farmaður mikill og var með tignum mönnum þá er hann var í kaupferðum áður
hann settist í bú og þótti merkilegur maður. Verið hafði hann og í víkingu
og gaf þar góða raun fyrir karlmennsku sakir.
Bárður Höskuldsson hafði og verið farmaður og var vel metinn hvar sem hann
kom því að hann var hinn besti drengur og hófsmaður um allt. Bárður
kvongaðist og fékk breiðfirskrar konu er Ástríður hét. Var hún kyngóð. Son
Bárðar hét Þórarinn en dóttir hans Guðný er átti Hallur son Víga-Styrs og er
frá þeim kominn mikill áttbogi.
Hrútur Herjólfsson gaf frelsi þræli sínum þeim er Hrólfur hét og þar með
fjárhlut nokkurn og bústað að landamæri þeirra Höskulds og lágu svo nær
landamerkin að þeim Hrýtlingum hafði yfir skotist um þetta og höfðu þeir
settan lausingjann í land Höskulds. Hann græddi þar brátt mikið fé.
Höskuldi þótti þetta mikið í móti skapi er Hrútur hafði sett lausingjann við
eyra honum, bað lausingjann gjalda sér fé fyrir jörðina þá er hann bjó á
"því að það er mín eign."
Lausinginn fer til Hrúts og segir honum allt tal þeirra. Hrútur bað hann
engan gaum að gefa og gjalda ekki fé Höskuldi: "Veit eg eigi," segir hann,
"hvor okkar átt hefir land þetta."
Fer nú lausinginn heim og situr í búi sínu rétt sem áður.
Litlu síðar fer Þorleikur Höskuldsson að ráði föður síns með nokkura menn á
bæ lausingjans, taka hann og drepa en Þorleikur eignaði sér fé það allt og
föður sínum er lausinginn hafði grætt. Þetta spurði Hrútur og líkar illa og
sonum hans. Þeir voru margir þroskaðir og þótti sá frændabálkur
óárennilegur. Hrútur leitaði laga um mál þetta hversu fara ætti. Og er þetta
mál var rannsakað af lögmönnum þá gekk þeim Hrúti lítt í hag og mátu menn
það mikils er Hrútur hafði sett lausingjann niður á óleyfðri jörðu Höskulds
og hafði hann grætt þar fé. Hafði Þorleikur drepið hann á eignum þeirra
feðga. Undi Hrútur illa við sinn hlut og var þó samt.