Þann vetur er Ólafur bjó fyrst í Hjarðarholti hafði hann margt hjóna og
vinnumanna. Var skipt verkum með húskörlum. Gætti annar geldneyta en annar
kúneyta. Fjósið var brott í skóg eigi allskammt frá bænum.
Eitt kveld kom sá maður að Ólafi er geldneyta gætti og bað hann fá til annan
mann að gæta nautanna "en ætla mér önnur verk."
Ólafur svarar: "Það vil eg að þú hafir hin sömu verk þín."
Hann kvaðst heldur brott vilja.
"Ábóta þykir þér þá vant," segir Ólafur. "Nú mun eg fara í kveld með þér er
þú bindur inn naut og ef mér þykir nokkur vorkunn til þessa þá mun eg ekki
að telja ella muntu finna á þínum hlut í nokkuru."
Ólafur tekur í hönd sér spjótið gullrekna, konungsnaut, gengur nú heiman og
húskarl með honum. Snjór var nokkur á jörðu. Koma þeir til fjóssins og var
það opið. Ræddi Ólafur að húskarl skyldi inn ganga "en eg mun reka að þér
nautin en þú bitt eftir."
Húskarl gengur að fjósdurunum.
Ólafur finnur eigi fyrr en hann hleypur í fang honum. Spyr Ólafur hví hann
færi svo fæltilega.
Hann svarar: "Hrappur stendur í fjósdurunum og vildi fálma til mín en eg er
saddur á fangbrögðum við hann."
Ólafur gengur þá að durunum og leggur spjótinu til hans. Hrappur tekur
höndum báðum um fal spjótsins og snarar af út svo að þegar brotnar skaftið.
Ólafur vill þá renna á Hrapp en Hrappur fór þar niður sem hann var kominn.
Skilur þar með þeim. Hafði Ólafur skaft en Hrappur spjótið. Eftir þetta
binda þeir Ólafur inn nautin og ganga heim síðan. Ólafur sagði nú húskarli
að hann mun honum eigi sakir á gefa þessi orðasemi.
Um morguninn eftir fer Ólafur heiman og þar til er Hrappur hafði dysjaður
verið og lætur þar til grafa. Hrappur var þá enn ófúinn. Þar finnur Ólafur
spjót sitt. Síðan lætur hann gera bál. Er Hrappur brenndur á báli og er aska
hans flutt á sjá út. Héðan frá verður engum manni mein að afturgöngu Hrapps.