Síðan var stofnað til boðs á Höskuldsstöðum og ekki til sparað en ærin voru
efni. Boðsmenn koma að ákveðinni stefnu. Voru þeir Borgfirðingar
allfjölmennir. Var þar Egill og Þorsteinn son hans. Þar var og brúður í för
og valið lið úr héraðinu. Höskuldur hafði og fjölmennt fyrir. Veisla var
allsköruleg. Voru menn með gjöfum á brott leiddir. Þá gaf Ólafur Egli
sverðið Mýrkjartansnaut og varð Egill allléttbrúnn við gjöfina. Allt var þar
tíðindalaust og fara menn heim.

24. kafli - Reist Hjarðarholt
Þau Ólafur og Þorgerður voru á Höskuldsstöðum og takast þar ástir miklar.
Auðsætt var það öllum mönnum að hún var skörungur mikill en fáskiptin
hversdaglega. En það varð fram að koma er Þorgerður vildi til hvers sem hún
hlutaðist. Ólafur og Þorgerður voru ýmist þann vetur á Höskuldsstöðum eða
með fóstra hans. Um vorið tók Ólafur við búi á Goddastöðum. Það sumar tók
Þórður goddi sótt þá er hann leiddi til bana. Ólafur lét verpa haug eftir
hann í nesi því er gengur fram í Laxá er Drafnarnes heitir. Þar er garður
hjá og heitir Haugsgarður. Síðan drífa menn að Ólafi og gerðist hann
höfðingi mikill. Höskuldur öfundaði það ekki því að hann vildi jafnan að
Ólafur væri að kvaddur öllum stórmálum. Þar var bú risulegast í Laxárdal er
Ólafur átti. Þeir voru bræður tveir með Ólafi er hvortveggi hét Án. Var
annar kallaður Án hinn hvíti en annar Án svarti. Beinir hinn sterki var hinn
þriðji. Þessir voru sveinar Ólafs og allir hraustir menn. Þorgerður og
Ólafur áttu dóttur er Þuríður hét.
Lendur þær er Hrappur hafði átt lágu í auðn sem fyrr var ritað. Ólafi þóttu
þær vel liggja, ræddi fyrir föður sínum eitt sinn að þeir mundu gera menn á
fund Trefils með þeim erindum að Ólafur vill kaupa að honum löndin á
Hrappsstöðum og aðrar eignir þær er þar fylgja. Það var auðsótt og var þessu
kaupi slungið því að Trefill sá það að honum var betri ein kráka í hendi en
tvær í skógi. Var það að kaupi með þeim að Ólafur skyldi reiða þrjár merkur
silfurs fyrir löndin en það var þó ekki jafnaðarkaup því að það voru víðar
lendur og fagrar og mjög gagnauðgar. Miklar laxveiðar og selveiðar fylgdu
þar. Voru þar og skógar miklir nokkuru ofar en Höskuldsstaðir eru fyrir
norðan Laxá. Þar var höggvið rjóður í skóginum og þar var nálega til gers að
ganga að þar safnaðist saman fé Ólafs hvort sem veður voru betri eða verri.


Fred & Grace Hatton
Hawley, Pa.