Ekki lét Þorgerður sér það skiljast.
Nú skilja þau talið og þykir nokkuð sinn veg hvoru.
Annan dag eftir gengur Egill til búðar Höskulds og fagnar Höskuldur honum
vel, taka nú tal saman. Spyr Höskuldur hversu gengið hafi bónorðsmálin.
Egill lét lítt yfir, segir allt hversu farið hafði. Höskuldur kvað fastlega
horfa "en þó þykir mér þér vel fara."
Ekki var Ólafur við tal þeirra. Eftir það gengur Egill á brott. Fréttir
Ólafur nú hvað líði bónorðsmálum. Höskuldur kvað seinlega horfa af hennar
hendi.
Ólafur mælti: "Nú er sem eg sagði þér faðir að mér mundi illa líka ef eg
fengi nokkur svívirðingarorð að móti. Réðstu meir er þetta var upp borið. Nú
skal eg og því ráða að eigi skal hér niður falla. Er það og satt að sagt er,
að úlfar eta annars erindi. Skal nú og ganga þegar til búðar Egils."
Höskuldur bað hann því ráða.
Ólafur var búinn á þá leið að hann var í skarlatsklæðum er Haraldur konungur
hafði gefið honum. Hann hafði á höfði hjálm gullroðinn og sverð búið í hendi
er Mýrkjartan konungur hafði gefið honum.
Nú ganga þeir Höskuldur og Ólafur til búðar Egils. Gengur Höskuldur fyrir en
Ólafur þegar eftir. Egill fagnar þeim vel og sest Höskuldur niður hjá honum
en Ólafur stóð upp og litaðist um. Hann sá hvar kona sat á pallinum í
búðinni. Sú kona var væn og stórmannleg og vel búin. Vita þóttist hann að
þar mundi vera Þorgerður dóttir Egils. Ólafur gengur að pallinum og sest
niður hjá henni. Þorgerður heilsar þessum manni og spyr hver hann sé. Ólafur
segir nafn sitt og föður síns: "Mun þér þykja djarfur gerast
ambáttarsonurinn er hann þorir að sitja hjá þér og ætlar að tala við þig."
Þorgerður svarar: "Það muntu hugsa að þú munt þykjast hafa gert meiri
þoranraun en tala við konur."
Síðan taka þau tal milli sín og tala þann dag allan. Ekki heyra aðrir menn
til tals þeirra. Og áður þau slitu talinu er til heimtur Egill og Höskuldur.
Tekst þá af nýju ræða um bónorðsmálið Ólafs. Víkur Þorgerður þá til ráða
föður síns. Var þá þetta mál auðsótt og fóru þá þegar festar fram. Varð þeim
þá unnt af metorða, Laxdælum, því að þeim skyldi færa heim konuna. Var
ákveðin brullaupsstefna á Höskuldsstöðum að sjö vikum sumars. Eftir það
skilja þeir Egill og Höskuldur og ríða þeir feðgar heim á Höskuldsstaði og
eru heima um sumarið og er allt kyrrt.

Fred & Grace Hatton
Hawley, Pa.