Melkorka kom brátt á fund Ólafs sonar síns. Ólafur fagnar henni með allri
blíðu. Spyr hún mjög margs af Írlandi, fyrst að föður sínum og öðrum frændum
sínum. Ólafur segir slíkt er hún spyr. Brátt spurði hún ef fóstra hennar
lifði. Ólafur kvað hana að vísu lifa. Melkorka spyr þá hví hann vildi eigi
veita henni eftirlæti það að flytja hana til Íslands.
Þá svarar Ólafur: "Ekki fýstu menn þess móðir að eg flytti fóstru þína af
Írlandi."
"Svo má vera," segir hún.
Það fannst á að henni þótti þetta mjög í móti skapi.
Þau Melkorka og Þorbjörn áttu son einn og er sá nefndur Lambi. Hann var
mikill maður og sterkur og líkur föður sínum yfirlits og svo að skaplyndi.
En er Ólafur hafði verið um vetur á Íslandi og er vor kom þá ræða þeir
feðgar um ráðagerðir sínar.
"Það vildi eg Ólafur," segir Höskuldur, "að þér væri ráðs leitað og tækir
síðan við búi fóstra þíns á Goddastöðum, er þar enn fjárafli mikill, veittir
síðan umsýslu um bú það með minni umsjá."
Ólafur svarar: "Lítt hefi eg það hugfest hér til. Veit eg eigi hvar sú kona
situr er mér sé mikið happ í að geta. Máttu svo til ætla að eg mun framarla
á horfa um kvonfangið. Veit eg og það gerla að þú munt þetta eigi fyrr hafa
upp kveðið en þú munt hugsað hafa hvar þetta skal niður koma."
Höskuldur mælti: "Rétt getur þú. Maður heitir Egill. Hann er
Skalla-Grímsson. Hann býr að Borg í Borgarfirði. Egill á sér dóttur þá er
Þorgerður heitir. Þessarar konu ætla eg þér til handa að biðja því að þessi
kostur er albestur í öllum Borgarfirði og þó að víðara væri. Er það og vænna
að þér yrði þá efling að mægðum við þá Mýramenn."
Ólafur svarar: "Þinni forsjá mun eg hlíta hér um og vel er mér að skapi
þetta ráð ef við gengist. En svo máttu ætla faðir ef þetta mál er upp borið
og gangist eigi við að mér mun illa líka."
Höskuldur segir: "Til þess munum vér ráða að bera þetta mál upp."