Ólafur þakkaði konungi þann sóma er hann bauð honum en kvaðst þó gjarna
vilja fara til Íslands ef það væri eigi að móti konungs vilja.
Þá svarar konungur: "Eigi skal þetta gera óvinveitt við þig Ólafur. Fara
skaltu í sumar út til Íslands því að eg sé að hugir þínir standa til þess
mjög. En öngva önn né starf skaltu hafa fyrir um búnað þinn. Skal eg það
annast."
Eftir þetta skilja þeir talið.
Haraldur konungur lætur fram setja skip um vorið. Það var knörr. Það skip
var bæði mikið og gott. Það skip lætur konungur ferma með viði og búa með
öllum reiða.
Og er skipið var búið lætur konungur kalla á Ólaf og mælti: "Þetta skip
skaltu eignast Ólafur. Vil eg eigi að þú siglir af Noregi þetta sumar svo að
þú sért annarra farþegi."
Ólafur þakkaði konungi með fögrum orðum sína stórmennsku.
Eftir það býr Ólafur ferð sína. Og er hann er búinn og byr gefur þá siglir
Ólafur á haf og skiljast þeir Haraldur konungur með hinum mesta kærleik.
Ólafi byrjaði vel um sumarið. Hann kom skipi sínu í Hrútafjörð á Borðeyri.
Skipkoma spyrst brátt og svo það hver stýrimaður er. Höskuldur spyr útkomu
Ólafs sonar síns og verður feginn mjög og ríður þegar norður til
Hrútafjarðar með nokkura menn. Verður þar fagnafundur með þeim feðgum. Bauð
Höskuldur Ólafi til sín. Hann kvaðst það þiggja mundu. Ólafur setur upp skip
sitt en fé hans er norðan flutt. En er það er sýslað ríður Ólafur norðan við
tólfta mann og heim á Höskuldsstaði. Höskuldur fagnar blíðlega syni sínum.
Bræður hans taka og með blíðu við honum og allir frændur hans. Þó var flest
um með þeim Bárði.
Ólafur varð frægur af ferð þessi. Þá var og kunnigt gert kynferði Ólafs, að
hann var dótturson Mýrkjartans Írakonungs. Spyrst þetta um allt land og þar
með virðing sú er ríkir menn höfðu á hann lagt, þeir er hann hafði heim
sótt. Ólafur hafði og mikið fé út haft og er nú um veturinn með föður sínum.