Ólafur þakkar honum boð þetta með mikilli snilld og fögrum orðum en kvaðst
þó eigi mundu á hætta hversu synir hans þyldu það þá er Mýrkjartans missti
við, kvað betra vera að fá skjóta sæmd en langa svívirðing, kvaðst til
Noregs fara vilja þegar skipum væri óhætt að halda á millum landa, kvað
móður sína mundu hafa lítið yndi ef hann kæmi eigi aftur. Konungur bað Ólaf
ráða. Síðan var slitið þinginu.

En er skip Ólafs var albúið þá fylgir konungur Ólafi til skips og gaf honum
spjót gullrekið og sverð búið og mikið fé annað. Ólafur beiddist að flytja
fóstru Melkorku á brott með sér. Konungur kvað þess enga þörf og fór hún
eigi. Stigu þeir Ólafur á skip sitt og skiljast þeir konungur með allmikilli
vináttu.

Eftir það sigla þeir Ólafur á haf. Þeim byrjaði vel og tóku Noreg og er
Ólafs för allfræg, setja nú upp skipið. Fær Ólafur sér hesta og sækir nú á
fund Haralds konungs með sínu föruneyti.

22. kafli - Útkoma Ólafs

Ólafur Höskuldsson kom nú til hirðar Haralds konungs og tók konungur honum
vel en Gunnhildur miklu betur. Þau buðu honum til sín og lögðu þar mörg orð
til. Ólafur þiggur það og fara þeir Örn báðir til konungs hirðar. Leggur
konungur og Gunnhildur svo mikla virðing á Ólaf að engi útlendur maður hafði
slíka virðing af þeim þegið. Ólafur gaf konungi og Gunnhildi marga fáséna
gripi er hann hafði þegið á Írlandi vestur. Haraldur konungur gaf Ólafi að
jólum öll klæði skorin af skarlati. Situr nú Ólafur um kyrrt um veturinn.

Og um vorið er á leið taka þeir tal milli sín, konungur og Ólafur.

Beiddist Ólafur orlofs af konungi að fara út til Íslands um sumarið, "á eg
þangað að vitja," segir hann, "göfugra frænda."

Konungur svarar: "Það væri mér næst skapi að þú staðfestist hér með mér og
tækir hér allan ráðakost slíkan sem þú vilt sjálfur."

Fred and Grace Hatton
Hawley Pa