En er Írar sjá viðbúning þeirra þá skýtur þeim skelk í bringu og þykir þeim
eigi jafnauðvelt féfang sem þeir hugðu til. Hnekkja Írar nú ferðinni og
hlaupa saman í eitt þorp. Síðan kemur kurr mikill í lið þeirra og þykir þeim
nú auðvitað að þetta var herskip og muni vera miklu fleiri skipa von, gera
nú skyndilega orð til konungs. Var það og hægt því að konungur var þá skammt
í brott þaðan á veislum. Hann ríður þegar með sveit manna þar til sem skipið
var. Eigi var lengra á millum landsins og þess er skipið flaut en vel mátti
nema tal millum manna. Oft höfðu Írar veitt þeim árásir með skotum og varð
þeim Ólafi ekki mein að.
Ólafur stóð með þessum búningi sem fyrr var ritað og fannst mönnum margt um
hversu skörulegur sjá maður var er þar var skipsforingi. En er skipverjar
Ólafs sjá mikið riddaralið ríða til þeirra og var hið fræknlegsta þá þagna
þeir því að þeim þótti mikill liðsmunur við að eiga.
En er Ólafur heyrði þenna kurr sem í sveit hans gerðist bað hann þá herða
hugina "því að nú er gott efni í voru máli. Heilsuðu þeir Írar nú
Mýrkjartani konungi sínum."
Síðan riðu þeir svo nær skipinu að hvorir máttu skilja hvað aðrir töluðu.
Konungur spyr hver skipi stýrði. Ólafur segir nafn sitt og spurði hver sá
væri hinn vasklegi riddari er hann átti þá tal við.
Sá svarar: "Eg heiti Mýrkjartan."
Ólafur mælti: "Hvort ertu konungur Íra?"
Hann kvað svo vera. Þá spyr konungur almæltra tíðinda. Ólafur leysti vel úr
þeim tíðindum öllum er hann var spurður. Þá spyr konungur hvaðan þeir hefðu
út látið eða hverra menn þeir væru. Og enn spyr konungur vandlegar um ætt
Ólafs en fyrrum því að konungur fann að þessi maður var ríklátur og vildi
eigi segja lengra en hann spurði.