Konungur mælti: "Miklir ágætismenn eru slíkt sem þú ert því að þú ert enn
lítið af barnsaldri og sæk þegar á vorn fund er þú kemur aftur."
Síðan bað konungur og Gunnhildur Ólaf vel fara.
Stigu síðan á skip og sigla þegar á haf. Þeim byrjaði illa um sumarið. Hafa
þeir þokur miklar en vinda litla og óhagstæða þá sem voru. Rak þá víða um
hafið. Voru þeir flestir innanborðs að á kom hafvilla. Það varð um síðir að
þoku hóf af höfði og gerðust vindar á. Var þá tekið til segls. Tókst þá
umræða hvert til Írlands mundi að leita og urðu menn eigi ásáttir á það. Örn
var til móts en mestur hluti manna mælti í gegn og kváðu Örn allan villast
og sögðu þá ráða eiga er fleiri voru.
Síðan skutu þeir til ráða Ólafs en Ólafur segir: "Það vil eg að þeir ráði
sem hyggnari eru því verr þykir mér sem oss muni duga heimskra manna brögð
er þau koma fleiri saman."
Þótti þá úr skorið er Ólafur mælti þetta og réð Örn leiðsögu þaðan í frá.
Sigla þeir þá nætur og daga og hafa jafnan byrlítið.
Það var einhverja nótt að varðmenn hljópu upp og báðu menn vaka sem tíðast,
kváðust sjá land svo nær sér að þeir stungu nær stafni að. En seglið var
uppi og alllítið veðrið að. Menn hlaupa þegar upp og bað Örn beita á brott
frá landinu ef þeir mættu.
Ólafur segir: "Ekki eru þau efni í um vort mál því að eg sé að boðar eru á
bæði borð og allt fyrir skutstafn og felli seglið sem tíðast. En gerum ráð
vor þá er ljós dagur er og menn kenna land þetta."
Síðan kasta þeir akkerum og hrífa þau þegar við. Mikil er umræða um nóttina
hvar þeir mundu að komnir. En er ljós dagur var kenndu þeir að það var
Írland.
Örn mælti þá: "Það hygg eg að vér höfum ekki góða aðkomu því að þetta er
fjarri höfnum og þeim kaupstöðum er útlendir menn skulu hafa frið því að vér
erum nú fjaraðir uppi svo sem hornsíl. Og nær ætla eg það lögum þeirra Íra
þótt þeir kalli fé þetta er vér höfum með að fara með sínum föngum því að
heita láta þeir það vogrek er minnur er fjarað frá skutstafni."
Fred and Grace Hatton
Hawley Pa