Ólafur bað móður sína eina ráða. Síðan ræddi Ólafur við Þorbjörn að hann
vildi taka vöru af honum að láni og gera mikið að.

Þorbjörn svarar: "Það mun því aðeins nema eg nái ráðahag við Melkorku. Þá
væntir mig að þér sé jafnheimilt mitt fé sem það er þú hefir að varðveita."

Ólafur kvað það þá mundu að ráði gert, töluðu þá með sér þá hluti er þeir
vildu og skyldi þetta fara allt af hljóði.

Höskuldur ræddi við Ólaf að hann mundi ríða til þings með honum. Ólafur
kvaðst það eigi mega fyrir búsýslu, kvaðst vilja láta gera lambhaga við
Laxá. Höskuldi líkar þetta vel er hann vill um búið annast. Síðan reið
Höskuldur til þings en snúið var að brullaupi á Lambastöðum og réð Ólafur
einn máldaga. Ólafur tók þrjá tigu hundraða vöru af óskiptu og skyldi þar
ekki fé fyrir koma. Bárður Höskuldsson var að brullaupi og vissi þessa
ráðagerð með þeim. En er boði var lokið þá reið Ólafur til skips og hitti
Örn stýrimann og tók sér þar fari.

En áður en þau Melkorka skildust selur hún í hendur Ólafi fingurgull mikið
og mælti: "Þenna grip gaf faðir minn mér að tannfé og vænti eg að hann kenni
ef hann sér."

Enn fékk hún honum í hönd hníf og belti og bað hann selja fóstru sinni: "Get
eg að hún dyljist eigi við þessar jartegnir."

Og enn mælti Melkorka: "Heiman hefi eg þig búið svo sem eg kann best og
kennt þér írsku að mæla svo að þig mun það eigi skipta hvar þig ber að
Írlandi."

Nú skilja þau eftir þetta. Þegar kom byr á er Ólafur kom til skips og sigla
þeir þegar í haf.


21. kafli

Nú kemur Höskuldur heim af þingi og spyr þessi tíðindi. Honum líkar heldur
þunglega. En með því að vandamenn hans áttu hlut í þá sefaðist hann og lét
vera kyrrt.
Fred and Grace Hatton
Hawley Pa