Þórólfur svarar á þá leið: "Ekki mun eg dyljast við jartegnir þessar. Mun eg
að vísu taka við þessum manni að orðsending hennar. Þykir mér Vigdísi þetta
mál drengilega hafa farið. Er það mikill harmur er þvílík kona skal hafa svo
óskörulegt gjaforð. Skaltu Ásgautur dveljast hér þvílíka hríð sem þér
líkar."

Ásgautur kvaðst ekki lengi þar mundu dveljast.

Þórólfur tekur nú við nafna sínum og gerist hann hans fylgdarmaður en þeir
Ásgautur skiljast góðir vinir og fer Ásgautur heimleiðis.

Nú er að segja frá Ingjaldi að hann snýr heim á Goddastaði þá er þeir
Þórólfur höfðu skilist. Þar voru þá komnir menn af næstum bæjum að
orðsending Vigdísar. Voru þar eigi færri karlar fyrir en tuttugu.

En er þeir Ingjaldur koma á bæinn þá kallar hann Þórð til sín og mælti við
hann: "Ódrengilega hefir þér farið til vor Þórður," segir hann, "því að vér
höfum það fyrir satt að þú hafir manninum á brott skotið."

Þórður kvað hann eigi satt hafa á höndum sér um þetta mál. Kemur nú upp öll
þeirra ráðagerð, Ingjalds og Þórðar. Vill Ingjaldur nú hafa fé sitt það er
hann hafði fengið Þórði í hendur.

Vigdís var þá nær stödd tali þeirra og segir þeim farið hafa sem maklegt
var, biður Þórð ekki halda á fé þessu "því að þú Þórður," segir hún, "hefir
þessa fjár ódrengilega aflað."

Þórður kvað hana þessu ráða mundu vilja.

Eftir þetta gengur Vigdís inn og til erkur þeirrar er Þórður átti og finnur
þar í niðri digran fésjóð. Hún tekur upp sjóðinn og gengur út með og þar til
er Ingjaldur var og biður hann taka við fénu. Ingjaldur verður við þetta
léttbrúnn og réttir höndina að móti fésjóðnum. Vigdís hefur upp fésjóðinn og
rekur á nasar honum svo að þegar féll blóð á jörð. Þar með velur hún honum
mörg hæðileg orð og það með að hann skal þetta fé aldregi fá síðan, biður
hann á brott fara. Ingjaldur sér sinn kost þann hinn besta að verða á brottu
sem fyrst og gerir hann svo og léttir eigi ferð sinni fyrr en hann kemur
heim og unir illa við sína ferð.
Fred and Grace Hatton
Hawley Pa