Í þenna tíma ríður Ingjaldur af Goddastöðum því að hann ætlaði að heimta þá
verð fyrir silfrið. Og er hann var kominn ofan frá bænum þá sjá þeir tvo
menn fara í móti sér og var þar Ásgautur og Þórólfur. Þetta var snemma um
morgun svo að lítt var lýst af degi.
Þeir Ásgautur og Þórólfur voru komnir í svo mikinn klofa að Ingjaldur var á
aðra hönd en Laxá á aðra hönd. Áin var ákaflega mikil. Voru höfuðísar að
báðum megin en gengin upp eftir miðju og var áin allill að sækja.
Þórólfur mælti við Ásgaut: "Nú þykir mér sem við munum eiga tvo kosti fyrir
höndum. Sá er kostur annar að bíða þeirra hér við ána og verjast eftir því
sem okkur endist hreysti til og drengskapur en þó er þess meiri von að þeir
Ingjaldur sæki líf okkart skjótt. Sá er annar kostur að ráða til árinnar og
mun það þykja þó enn með nokkurri hættu."
Ásgautur biður hann ráða, kvaðst nú ekki munu við hann skiljast "hvert ráð
sem þú vilt upp taka hér um."
Þórólfur svarar: "Til árinnar munum við leita."
Og svo gera þeir, búa sig sem léttlegast. Eftir það ganga þeir ofan fyrir
höfuðísinn og leggjast til sunds. Og með því að menn voru hraustir og þeim
varð lengra lífs auðið þá komast þeir yfir ána og upp á höfuðísinn öðrum
megin. Það er mjög jafnskjótt er þeir eru komnir yfir ána að Ingjaldur kemur
að öðrum megin að ánni og förunautar hans.
Þá tekur Ingjaldur til orða og mælti til förunauta sinna: "Hvað er nú til
ráðs? Skal ráða til árinnar eða eigi?"
Þeir sögðu að hann mundi ráða, sögðust og hans forsjá mundu hlíta að. Þó
sýndist þeim áin óyfirfærileg.
Ingjaldur kvað svo vera "og munum vér frá hverfa ánni."
En er þeir Þórólfur sjá þetta, að þeir Ingjaldur ráða eigi til árinnar, þá
vinda þeir fyrst klæði sín og búa sig til göngu og ganga þann dag allan,
koma að kveldi til Sauðafells. Þar var vel við þeim tekið því að þar var
allra manna gisting. Og þegar um kveldið gengur Ásgautur á fund Þórólfs
rauðnefs og sagði honum alla vöxtu sem á voru um þeirra erindi, að Vigdís
frændkona hans hafði þenna mann sent honum til halds og trausts er þar var
kominn, sagði honum allt hve farið hafði með þeim Þórði godda. Þar með ber
hann fram jartegnir þær er Vigdís hafði sent til Þórólfs.
Fred and Grace Hatton
Hawley Pa