Um sumarið eftir mælti Jórunn að frillan mundi upp taka verknað nokkurn eða
fara í brott ella. Höskuldur bað hana vinna þeim hjónum og gæta þar við
sveins síns. En þá er sveinninn var tvævetur þá var hann almæltur og rann
einn saman sem fjögurra vetra gömul börn.
Það var til tíðinda einn morgun er Höskuldur var genginn út að sjá um bæ
sinn. Veður var gott. Skein sól og var lítt á loft komin. Hann heyrði
mannamál. Hann gekk þangað til sem lækur féll fyrir túnbrekkunni. Sá hann
þar tvo menn og kenndi. Var þar Ólafur son hans og móðir hans. Fær hann þá
skilið að hún var eigi mállaus því að hún talaði þá margt við sveininn.
Síðan gekk Höskuldur að þeim og spyr hana að nafni og kvað henni ekki mundu
stoða að dyljast lengur. Hún kvað svo vera skyldu. Setjast þau niður á
túnbrekkuna.
Síðan mælti hún: "Ef þú vilt nafn mitt vita þá heiti eg Melkorka."
Höskuldur bað hana þá segja lengra ætt sína.
Hún svarar: "Mýrkjartan heitir faðir minn. Hann er konungur á Írlandi. Eg
var þaðan hertekin fimmtán vetra gömul."
Höskuldur kvað hana helsti lengi hafa þagað yfir svo góðri ætt.
Síðan gekk Höskuldur inn og sagði Jórunni hvað til nýlundu hafði gerst í
ferð hans. Jórunn kvaðst eigi vita hvað hún segði satt, kvað sér ekki um
kynjamenn alla og skilja þau þessa ræðu. Var Jórunn hvergi betur við hana en
áður en Höskuldur nokkuru fleiri.
Og litlu síðar er Jórunn gekk að sofa togaði Melkorka af henni og lagði
skóklæðin á gólfið. Jórunn tók sokkana og keyrði um höfuð henni. Melkorka
reiddist og setti hnefann á nasar henni svo að blóð varð laust. Höskuldur
kom að og skildi þær.
Eftir það lét hann Melkorku í brott fara og fékk henni þar bústað uppi í
Laxárdal. Þar heitir síðan á Melkorkustöðum. Þar er nú auðn. Það er fyrir
sunnan Laxá. Setur Melkorka þar bú saman. Fær Höskuldur þar til bús allt það
er hafa þurfti og fór Ólafur son þeirra með henni. Brátt sér það á Ólafi er
hann óx upp að hann mundi verða mikið afbragð annarra manna fyrir vænleiks
sakir og kurteisi.
Fred and Grace Hatton
Hawley Pa