Síðan stígur Höskuldur á skip sitt og siglir til hafs. Þeim byrjaði vel og
komu að fyrir sunnan land, sigldu síðan vestur fyrir Reykjanes og svo fyrir
Snæfellsnes og inn í Breiðafjörð. Höskuldur lenti í Laxárósi, lætur þar bera
farm af skipi sínu en setja upp skipið fyrir innan Laxá og gerir þar hróf að
og sér þar tóftina sem hann lét gera hrófið. Þar tjaldaði hann búðir og er
það kallaður Búðardalur.

Síðan lét Höskuldur flytja heim viðinn og var það hægt því að eigi var löng
leið. Ríður Höskuldur eftir það heim við nokkura menn og fær viðtökur góðar
sem von er. Þar hafði og fé vel haldist síðan. Jórunn spyr hver kona sú væri
er í för var með honum.

Höskuldur svarar: "Svo mun þér þykja sem eg svari þér skætingu. Eg veit eigi
nafn hennar."

Jórunn mælti: "Það mun tveimur skipta að sá kvittur mun loginn er fyrir mig
er kominn eða þú munt hafa talað við hana jafnmargt sem spurt hafa hana að
nafni."

Höskuldur kvaðst þess eigi þræta mundu og segir henni hið sanna og bað þá
þessi konu virkta og kvað það nær sínu skapi að hún væri heima þar að
vistafari.

Jórunn mælti: "Eigi mun eg deila við frillu þína þá er þú hefir flutt af
Noregi þótt hún kynni góðra návist en nú þykir mér það allra sýnst ef hún er
bæði dauf og mállaus."

Höskuldur svaf hjá húsfreyju sinni hverja nótt síðan hann kom heim en hann
var fár við frilluna. Öllum mönnum var auðsætt stórmennskumót á henni og svo
það að hún var engi afglapi.

Og á ofanverðum vetri þeim fæddi frilla Höskulds sveinbarn. Síðan var
Höskuldur þangað kallaður og var honum sýnt barnið. Sýndist honum sem öðrum
að hann þóttist eigi séð hafa vænna barn né stórmannlegra. Höskuldur var að
spurður hvað sveinninn skyldi heita. Hann bað sveininn kalla Ólaf því að þá
hafði Ólafur feilan andast litlu áður, móðurbróðir hans. Ólafur var afbragð
flestra barna. Höskuldur lagði ást mikla við sveininn.
Fred and Grace Hatton
Hawley Pa