Þá mælti Höskuldur: "Svo hefir nú til tekist að þetta mun verða kaup okkar.
Tak þú fé þetta til þín en eg mun taka við konu þessi. Kalla eg að þú hafir
drengilega af þessu máli haft því að vísu vildir þú mig eigi falsa í þessu."
Síðan gekk Höskuldur heim til búðar sinnar. Það sama kveld rekkti Höskuldur
hjá henni.
En um morguninn eftir er menn fóru í klæði sín mælti Höskuldur: "Lítt sér
stórlæti á klæðabúnaði þeim er Gilli hinn auðgi hefir þér fengið. Er það og
satt að honum var meiri raun að klæða tólf en mér eina."
Síðan lauk Höskuldur upp kistu eina og tók upp góð kvenmannsklæði og seldi
henni. Var það og allra manna mál að henni semdi góð klæði.
En er höfðingjar höfðu þar mælt þeim málum sem þá stóðu lög til var slitið
fundi þessum. Síðan gekk Höskuldur á fund Hákonar konungs og kvaddi hann
virðulega sem skaplegt var.
Konungur sá við honum og mælti: "Tekið mundum vér hafa kveðju þinni
Höskuldur þótt þú hefðir nokkuru fyrr oss fagnað og svo skal enn vera."
13. kafli - Útkoma Höskuldar
Eftir þetta tók konungur með allri blíðu Höskuldi og bað hann ganga á sitt
skip "og ver með oss meðan þú vilt í Noregi vera."
Höskuldur svarar: "Hafið þökk fyrir boð yðvart en nú á eg þetta sumar margt
að starfa. Hefir það mjög til haldið er eg hefi svo lengi dvalið að sækja
yðvarn fund að eg ætlaði að afla mér húsaviðar."
Konungur bað hann halda skipinu til Víkurinnar. Höskuldur dvaldist með
konungi um hríð. Konungur fékk honum húsavið og lét ferma skipið.
Þá mælti konungur til Höskulds: "Eigi skal dvelja þig hér með oss lengur en
þér líkar en þó þykir oss vandfengið manns í stað þinn."
Síðan leiddi konungur Höskuld til skips og mælti: "Að sómamanni hefi eg þig
reyndan og nær er það minni ætlan að þú siglir nú hið síðasta sinn af Noregi
svo að eg sé hér yfirmaður."
Konungur dró gullhring af hendi sér, þann er vó mörk, og gaf Höskuldi og
sverð gaf hann honum annan grip, það er til kom hálf mörk gulls. Höskuldur
þakkaði konungi gjafirnar og þann allan sóma er hann hafði fram lagiðFred
and Grace Hatton
Hawley Pa