Höskuldi Dala-Kollssyni þótti það ávant um rausn sína að honum þótti bær
sinn húsaður verr en hann vildi. Síðan kaupir hann skip að hjaltneskum
manni. Það skip stóð uppi í Blönduósi. Það skip býr hann og lýsir því að
hann ætlar utan en Jórunn varðveitir bú og börn þeirra.

Nú láta þeir í haf og gefur þeim vel og tóku Noreg heldur sunnarlega, komu
við Hörðaland þar sem kaupstaðurinn í Björgvin er síðan. Hann setur upp skip
sitt og átti þar mikinn frænda afla þótt eigi séu hér nefndir. Þá sat Hákon
konungur í Víkinni. Höskuldur fór ekki á fund Hákonar konungs því að frændur
hans tóku þar við honum báðum höndum. Var kyrrt allan þann vetur.


12. kafli - Leiðangur

Það varð til tíðinda um sumarið öndvert að konungur fór í stefnuleiðangur
austur í Brenneyjar og gerði frið fyrir land sitt eftir því sem lög stóðu
til hið þriðja hvert sumar. Sá fundur skyldi vera lagður höfðingja í milli
að setja þeim málum er konungar áttu um að dæma. Það þótti skemmtileg för að
sækja þann fund því að þangað komu menn nær af öllum löndum þeim er vér
höfum tíðindi af. Höskuldur setti fram skip sitt. Vildi hann og sækja fund
þenna því að hann hafði eigi fundið konung á þeim vetri. Þangað var og
kaupstefnu að sækja. Fundur þessi var allfjölmennur. Þar var skemmtan mikil,
drykkjur og leikar og alls kyns gleði. Ekki varð þar til stórtíðinda. Marga
hitti Höskuldur þar frændur sína þá sem í Danmörku voru.

Og einn dag er Höskuldur gekk að skemmta sér með nokkura menn sá hann tjald
eitt skrautlegt fjarri öðrum búðunum. Höskuldur gekk þangað og í tjaldið og
sat þar maður fyrir í guðvefjarklæðum og hafði gerskan hatt á höfði.
Höskuldur spurði þann mann að nafni.

Hann nefndist Gilli "en þá kannast margir við ef heyra kenningarnafn mitt.
Eg er kallaður Gilli hinn gerski."

Höskuldur kvaðst oft hafa heyrt hans getið, kallaði hann þeirra manna
auðgastan sem verið höfðu í kaupmannalögum.

Þá mælti Höskuldur: "Þú munt hafa þá hluti að selja oss er vér viljum
kaupa."

Gilli spyr hvað þeir vilja kaupa förunautar.

Höskuldur segir að hann vill kaupa ambátt nokkura "ef þú hefir að selja."
Fred and Grace Hatton
Hawley Pa