Þorsteinn hafði verið kvongaður. Kona hans var þá önduð. Dætur átti hann
tvær. Hét önnur Guðríður en önnur Ósk. Þorkell trefill átti Guðríði er bjó í
Svignaskarði. Hann var höfðingi mikill og vitringur. Hann var
Rauða-Bjarnarson. En Ósk dóttir Þorsteins var gefin breiðfirskum manni. Sá
hét Þórarinn. Hann var hraustur og vinsæll og var með Þorsteini mági sínum
því að Þorsteinn var þá hniginn og þurfti umsýslu þeirra mjög.

Hrappur var flestum mönnum ekki skapfelldur. Var hann ágangssamur við nábúa
sína. Veik hann á það stundum fyrir þeim að þeim mundi þungbýlt verða í nánd
honum ef þeir héldu nokkurn annan fyrir betra mann en hann. En bændur allir
tóku eitt ráð, að þeir fóru til Höskulds og sögðu honum sín vandræði.
Höskuldur bað sér segja ef Hrappur gerir þeim nokkuð mein "því að hvorki
skal hann ræna mig mönnum né fé."


11. kafli - Af Þórði godda

Þórður goddi hét maður er bjó í Laxárdal fyrir norðan á. Sá bær heitir síðan
á Goddastöðum. Hann var auðmaður mikill. Engi átti hann börn. Keypt hafði
hann jörð þá er hann bjó á. Hann var nábúi Hrapps og fékk oft þungt af
honum. Höskuldur sá um með honum svo að hann hélt bústað sínum.

Vigdís hét kona hans og var Ingjaldsdóttir, Ólafssonar feilans. Bróðurdóttir
var hún Þórðar gellis en systurdóttir Þórólfs rauðnefs frá Sauðafelli.
Þórólfur var hetja mikil og átti góða kosti. frændur hans gengu þangað
jafnan til trausts. Vigdís var meir gefin til fjár en brautargengis.

Þórður átti þræl þann er út kom með honum. Sá hét Ásgautur. Hann var mikill
maður og gervilegur en þótt hann væri þræll kallaður þá máttu fáir taka hann
til jafnaðar við sig þótt frjálsir hétu og vel kunni hann að þjóna sínum
meistara. Fleiri átti Þórður þræla þó að þessi sé einn nefndur.

Þorbjörn hét maður. Hann bjó í Laxárdal hið næsta Þórði, upp frá bæ hans, og
var kallaður skrjúpur. Auðigur var hann að fé. Mest var það í gulli og
silfri. Mikill maður var hann vexti og rammur að afli. Engi var hann
veifiskati við alþýðu manns.
Fred and Grace Hatton
Hawley Pa