I think we can keep everyone happy by doing the Laxdaela Saga on Mondays and
Star Wars on Thursdays.
Grace
Höskuldur gerist nú höfðingi mikill. Hann var ríkur og kappsamur og skortir
eigi fé. Þótti hann í engan stað minni fyrir sér en Kollur faðir hans.
Höskuldur og Jórunn höfðu eigi lengi ásamt verið áður þeim varð barna auðið.
Son þeirra var nefndur Þorleikur. Hann var elstur barna þeirra. Annar hét
Bárður. Dóttir þeirra hét Hallgerður er síðan var kölluð langbrók. Önnur
dóttir þeirra hét Þuríður. Öll voru börn þeirra efnileg. Þorleikur var
mikill maður og sterkur og hinn sýnilegsti, fálátur og óþýður. Þótti mönnum
sá svipur á um hans skaplyndi sem hann mundi verða engi jafnaðarmaður.
Höskuldur sagði það jafnan að hann mundi mjög líkjast í ætt þeirra
Strandamanna. Bárður var skörulegur maður sýnum og vel sterkur. Það bragð
hafði hann á sér sem hann mundi líkari verða föðurfrændum sínum. Bárður var
hægur maður í uppvexti sínum og vinsæll maður. Höskuldur unni honum mest
allra barna sinna.
Stóð nú ráðahagur Höskulds með miklum blóma og virðingu.
Þenna tíma gifti Höskuldur Gró systur sína Véleifi gamla. Þeirra son var
Hólmgöngu-Bersi.
10. kafli - Af Hrappi óþokka
Hrappur hét maður er bjó í Laxárdal fyrir norðan ána, gegnt Höskuldsstöðum.
Sá bær hét síðan á Hrappsstöðum. Þar er nú auðn. Hrappur var Sumarliðason og
kallaður Víga-Hrappur. Hann var skoskur að föðurætt en móðurkyn hans var
allt í Suðureyjum og þar var hann fæðingi. Mikill maður var hann og sterkur.
Ekki vildi hann láta sinn hlut þó að manna munur væri nokkur. Og fyrir það
er hann var ódæll sem ritað var en vildi ekki bæta það er hann misgerði þá
flýði hann vestan um haf og keypti sér þá jörð er hann bjó á. Kona hans hét
Vigdís og var Hallsteinsdóttir. Son þeirra hét Sumarliði. Bróðir hennar hét
Þorsteinn surtur er þá bjó í Þórsnesi, sem fyrr var ritað. Var þar Sumarliði
að fóstri og var hinn efnilegsti maður