Unnur hafði og með sér marga þá menn er mikils voru verðir og stórættaðir.
Maður er nefndur Kollur er einna var mest verður af föruneyti Unnar. Kom
mest til þess ætt hans. Hann var hersir að nafni. Sá maður var og í ferð með
Unni er Hörður hét. Hann var enn stórættaður maður og mikils verður.

Unnur heldur skipinu í Orkneyjar þegar er hún var búin. Þar dvaldist hún
litla hríð. Þar gifti hún Gró dóttur Þorsteins rauðs. Hún var móðir Grélaðar
er Þorfinnur jarl átti, son Torf-Einars jarls, sonar Rögnvalds Mærajarls.
Þeirra son var Hlöðvir faðir Sigurðar jarls, föður Þorfinns jarls, og er
þaðan komið kyn allra Orkneyingajarla.

Eftir það hélt Unnur skipi sínu til Færeyja og átti þar enn nokkura dvöl.
Þar gifti hún aðra dóttur Þorsteins. Sú hét Ólöf. Þaðan er komin sú ætt er
ágæst er í því landi er þeir kalla Götuskeggja.


5. kafli - Af Unni

Nú býst Unnur í brott úr Færeyjum og lýsir því fyrir skipverjum sínum að hún
ætlar til Íslands. Hún hefir með sér Ólaf feilan son Þorsteins rauðs og
systur hans þær er ógiftar voru. Eftir það lætur hún í haf og verður vel
reiðfara og kemur skipi sínu fyrir sunnan land á Vikrarskeið. Þar brjóta þau
skipið í spón. Menn allir héldust og svo fé.

Síðan fór hún á fund Helga bróður síns með tuttugu menn. Og er hún kom þar
gekk hann á mót henni og bauð henni til sín við tíunda mann. Hún svarar
reiðulega og kvaðst eigi vitað hafa að hann væri slíkt lítilmenni og fer í
brott.

Ætlar hún nú að sækja heim Björn bróður sinn í Breiðafjörð. Og er hann spyr
til ferða hennar þá fer hann í mót henni með fjölmenni og fagnar henni vel
og bauð henni til sín með öllu liði sínu því að hann kunni veglyndi systur
sinnar. Það líkaði henni allvel og þakkaði honum stórmennsku sína. Hún var
þar um veturinn og var veitt hið stórmannlegasta því að efni voru nóg en fé
eigi sparað.

Og um vorið fór hún yfir Breiðafjörð og kom að nesi nokkuru og átu þar
dagverð. Þar er síðan kallað Dögurðarnes og gengur þar af Meðalfellsströnd.
Síðan hélt hún skipi sínu inn eftir Hvammsfirði og kom þar að nesi einu og
átti þar dvöl nokkura. Þar tapaði Unnur kambi sínum. Þar heitir síðan
Kambsnes. Eftir það fór hún um alla Breiðafjarðardali og nam sér lönd svo
víða sem hún vildi. Síðan hélt Unnur skipi sínu í fjarðarbotninn. Voru þar
reknar á land öndvegissúlur hennar. Þótti henni þá auðvitað hvar hún skyldi
bústað taka. Hún lætur bæ reisa þar er síðan heitir í Hvammi og bjó þar.

Það sama vor er Unnur setti bú saman í Hvammi fékk Kollur Þorgerðar dóttur
Þorsteins rauðs. Það boð kostaði Unnur. Lætur hún Þorgerði heiman fylgja
Laxárdal allan og setti hann þar bú saman fyrir sunnan Laxá. Var Kollur hinn
mesti tilkvæmdarmaður. Þeirra son var Höskuldur.
Fred and Grace Hatton
Hawley Pa