3. kafli - Af Katli flatnef

Eftir þetta hafði Ketill boð ágætt. Þá gifti hann Þórunni hyrnu dóttur sína
Helga hinum magra, sem fyrr var ritað. Eftir það býr Ketill ferð sína úr
landi vestur um haf. Unnur dóttir hans fór með honum og margir aðrir frændur
hans.

Synir Ketils héldu það sama sumar til Íslands og Helgi magri mágur þeirra.
Björn Ketilsson kom skipi sínu vestur í Breiðafjörð og sigldi inn eftir
firðinum og nær hinu syðra landinu þar til er fjörður skarst inn í landið en
fjall hátt stóð á nesinu fyrir innan fjörðinn en ey lá skammt frá landinu.
Björn segir að þeir mundu eiga þar dvöl nokkura. Björn gekk á land upp með
nokkura menn og reikaði fram með sjónum. Var þar skammt í milli fjalls og
fjöru. Honum þótti þar byggilegt. Þar fann Björn reknar öndvegissúlur sínar
í einni vík. Þótti þeim þá á vísað um bústaðinn.

Síðan tók Björn sér þar land allt á millum Stafár og Hraunfjarðar og bjó þar
er síðan heitir í Bjarnarhöfn. Hann var kallaður Björn hinn austræni. Hans
kona var Gjaflaug dóttir Kjallaks hins gamla. Þeirra synir voru þeir Óttar
og Kjallakur. Hans son var Þorgrímur, faðir Víga-Styrs og Vermundar, en
dóttir Kjallaks hét Helga. Hana átti Vestar á Eyri son Þórólfs blöðruskalla
er nam Eyri. Þeirra son var Þorlákur faðir Steinþórs á Eyri.

Helgi bjólan kom skipi sínu fyrir sunnan land og nam Kjalarnes allt á milli
Kollafjarðar og Hvalfjarðar og bjó að Esjubergi til elli. Helgi hinn magri
kom skipi sínu fyrir norðan land og nam Eyjafjörð allan á milli Sigluness og
Reynisness og bjó í Kristnesi. Frá þeim Helga og Þórunni er komið
Eyfirðingakyn.


4. kafli - Enn af Katli flatnef

Ketill flatnefur kom skipi sínu við Skotland og fékk góðar viðtökur af
tignum mönnum, því að hann var frægur maður og stórættaður, og buðu honum
þann ráðakost þar sem hann vildi hafa. Ketill staðfestist þar og annað
frændlið hans nema Þorsteinn dótturson hans. Hann lagðist þegar í hernað og
herjaði víða um Skotland og fékk jafnan sigur. Síðan gerði hann sætt við
Skota og eignaðist hálft Skotland og varð konungur yfir. Hann átti Þuríði
Eyvindardóttur systur Helga hins magra. Skotar héldu eigi lengi sættina því
að þeir sviku hann í tryggð. Svo segir Ari Þorgilsson hinn fróði um líflát
Þorsteins að hann félli á Katanesi.

Unnur djúpúðga var á Katanesi er Þorsteinn féll, son hennar. Og er hún frá
það að Þorsteinn var látinn en faðir hennar andaður þá þóttist hún þar enga
uppreist fá mundu. Eftir það lætur hún gera knörr í skógi á laun. Og er
skipið var algert þá bjó hún skipið og hafði auð fjár. Hún hafði í brott með
sér allt frændlið sitt það er á lífi var og þykjast menn varla dæmi til vita
að einn kvenmaður hafi komist í brott úr þvílíkum ófriði með jafnmiklu fé og
föruneyti. Má af því marka að hún var mikið afbragð annarra kvenna.
Fred and Grace Hatton
Hawley Pa