3. kafli

Þá er þau Andríður höfðu búið nokkura vetur í Brautarholti gátu þau son
saman. Sá var vatni ausinn og kallaður Búi. Hann var brátt mikið afbragð
annarra manna ungra, meiri og sterkari en aðrir menn og fríðari að sjá.

Esja bjó að Esjubergi sem fyrr var sagt. Hún bauð til fósturs Búa syni
Andríðs og fæddist hann upp að Esjubergi. Búi var kallaður einrænn í
uppfæðslu. Hann vildi aldrei blóta og kveðst það þykja lítilmannlegt að
hokra þar að. Hann vildi og aldrei með vopn fara heldur fór hann með slöngu
eina og knýtti henni um sig jafnan.

Kona er nefnd Þorgerður. Hún bjó á þeim bæ er heitir að Vatni er síðar er
kallað Elliðavatn. Með henni fæddist upp son hennar er Kolfinnur hét. Hann
var snemma mikill og ósýnilegur, svartur á hár. Hann lagðist á eldgróf og
beit börk af viði steiktan og gætti katla móður sinna. Þorgerði þótti á
þessu mein mikið. Þó vildi Kolfinnur ráða.

Þorgrímur goði gaf mikinn gaum að þeim mönnum sem ekki vildu blóta. Sættu
þeir af honum hinum mestum afarkostum. Létu þeir Þorsteinn son hans þá fara
mikil orð til Búa er hann vildi eigi blóta og kölluðu hann Búa hund.

Það vor er Búi var tólf vetra en Þorsteinn son Þorgríms var átján vetra
stefndi Þorsteinn Búa um rangan átrúnað til Kjalarnessþings og lét varða
skóggang. Þessa sök sótti Þorsteinn og varð Búi sekur skógarmaður. Eigi lét
Búi sem hann vissi og öllum ferðum sínum háttaði hann sem áður. Hann fór
jafnan í Brautarholt að finna föður sinn og móður og svo gerði hann enn. Af
þessu öllu saman urðu fáleikar miklir millum húsa.

Um vorið er á leið er þess getið að Búi fór til Brautarholts. Hann fór
jafnan einn saman. Ekki hafði hann vopnaburð meira en fyrr. Hann hafði knýtt
um sig slöngu sinni. Þorsteinn sá för Búa og kenndi manninn.

Fred and Grace Hatton
Hawley Pa