Hann kvað vísu þessa:

Var eg þar er bragnar börðust,

brandr gall á Írlandi.

Margr, þar er mættust törgur,

málmr gnast í dyn hjálma.

Sókn þeirra frá eg snarpa,

Sigurðr féll í dyn vigra.

Áðr téði ben blæða.

Brjánn fell og hélt velli.

Þeir Flosi og jarl töluðu margt um draum þenna. Viku síðar kom þar Hrafn
hinn rauði og sagði þeim tíðindin öll úr Brjánsorustu, fall konungs og
Sigurðar jarls og Bróður og allra víkinganna.

Flosi mælti: "Hvað segir þú mér til manna minna?"

"Þar féllu þeir allir," segir Hrafn, "en Þorsteinn mágur þinn þá grið af
Kerþjálfaði og er nú með honum. Halldór Guðmundarson lést þar."

Flosi segir jarli að hann mundi í braut fara "eigum vér suðurgöngu af höndum
að inna."

Jarl bað hann fara sem hann vildi og fékk honum skip og það sem hann þurfti
og í silfur mikið. Sigldu þeir síðan til Bretlands og dvöldust þar um stund.


158. kafli

Kári Sölmundarson sagði Skeggja bónda að hann vildi að hann fengi honum
skip. Skeggi bóndi gaf Kára skip alskipað. Stigu þeir þar á með Kára
Dagviður hvíti og Kolbeinn svarti. Sigldu þeir Kári nú suður fyrir
Skotlandsfjörðu. Þá fundu þeir menn úr Suðureyjum. Þeir sögðu Kára tíðindin
af Írlandi og svo það að Flosi var farinn til Bretlands og menn hans. En er
Kári spurði þetta þá sagði hann félögum sínum að hann vill halda suður til
Bretlands til móts við þá Flosa. Bað hann þá þann skiljast við sitt
föruneyti er það þætti betra og kvaðst að engum manni vilja vél draga að
hann lést enn á þeim hafa óhefnt harma sinna. Allir vildu honum fylgja.
Siglir hann þá suður til Bretlands og lögðu þar að í leynivog einn.

Þenna myrgin gekk Kolur Þorsteinsson í borg og skyldi kaupa silfur. Hann
hafði mest hæðiyrði við af brennumönnum. Kolur hafði talað margt við frú
eina ríka og var mjög í gadda slegið að hann mundi fá hennar og setjast þar.

Þenna hinn sama morgun gekk Kári í borgina. Hann kom þar að er Kolur taldi
silfrið. Kári kenndi hann og hljóp að honum með sverð brugðið og hjó á
hálsinn en hann taldi silfrið og nefndi tíu höfuðið er það fauk af bolnum.

Kári mælti: "Segið það Flosa að Kári Sölmundarson hefir vegið Kol
Þorsteinsson. Lýsi eg vígi þessu mér á hendur."

Gekk Kári þá til skips síns. Sagði hann þá skipverjum sínum vígið. Þá sigldu
þeir norður til Beruvíkur og settu upp skip sitt og fóru upp í Hvítsborg í
Skotlandi og voru með Melkólfi jarli þau misseri.
Fred and Grace Hatton
Hawley Pa