Þá var runnið eftir þeim er flóttann ráku og sagt þeim fallið Brjáns
konungs. Sneru þeir þá aftur þegar Úlfur hræða og Kerþjálfaður. Slógu þeir
þá hring um þá Bróður og felldu að þeim viðu. Var þá Bróðir höndum tekinn.
Úlfur hræða reist á honum kviðinn og leiddi hann um eik og rakti svo úr
honum þarmana og dó hann eigi fyrr en allir voru úr honum raktir. Menn
Bróður voru og allir drepnir. Síðan tóku þeir lík Brjáns konungs og bjuggu
um. Höfuð konungsins var gróið við bolinn. Fimmtán menn af brennumönnum
féllu í Brjánsorustu. Þar féll og Halldór son Guðmundar hins ríka og
Erlingur af Straumey.
Föstudagsmorgun varð sá atburður á Katanesi að maður sá er Dörruður hét gekk
út. Hann sá að menn riðu tólf saman til dyngju einnar og hurfu þar allir.
Hann gekk til dyngjunnar. Hann sá inn í glugg einn er á var og sá að þar
voru konur inni og höfðu færðan upp vef. Mannahöfuð voru fyrir kljána en
þarmar úr mönnum fyrir viftu og garn, sverð var fyrir skeið en ör fyrir
hræl.