Urðu þeir þá báðir reiðir og skiptu þegar liði sínu. Hafði Óspakur tíu skip
en Bróðir tuttugu. Óspakur var heiðinn og allra manna vitrastur. Hann lagði
skip sín inn á sundið en Bróðir lá fyrir utan. Bróðir hafði verið maður
kristinn og messudjákn að vígslu en hann hafði kastað trú sinni og gerðist
guðníðingur og blótaði nú heiðnar vættir og var allra manna fjölkunnigastur.
Hann hafði herbúnað þann er eigi bitu járn. Hann var bæði mikill og sterkur
og hafði hár svo mikið að hann drap undir belti sér. Það var svart.
156. kafli
Það bar við eina nótt að gnýr mikill kom yfir þá Bróður svo að þeir vöknuðu
við allir og spruttu upp og fóru í klæði sín. Þar með rigndi á þá blóði
vellanda. Hlífðu þeir sér þá með skjöldum og brunnu þó margir. Undur þetta
hélst allt til dags. Maður hafði látist af hverju skipi. Sváfu þeir þá um
daginn.
Aðra nótt varð enn gnýr og spruttu þá enn allir upp. Þá renndu sverð úr
slíðrum en öxar og spjót flugu í loft upp og börðust. Sóttu þá vopnin svo
fast að þeim að þeir urðu að hlífa sér og urðu þó margir sárir en dó maður
af hverju skipi. Hélst undur þetta allt til dags. Sváfu þeir þá enn um
daginn eftir.
Þriðju nótt varð gnýr með sama hætti. Þá flugu að þeim hrafnar og sýndist
þeim úr járni nefin og klærnar. Hrafnarnir sóttu þá svo fast að þeir urðu að
verja sig með sverðum en hlífðu sér með skjöldum. Gekk þessu enn til dags.
Þá hafði enn látist maður af hverju skipi. Þeir sváfu þá enn fyrst.
En er Bróðir vaknaði varp hann mæðilega öndunni og bað skjóta utan báti "því
að eg vil finna Óspak." Steig hann þá í bátinn og nokkurir menn með honum.
En er hann fann Óspak sagði hann honum öll undur þau er fyrir þá hafði borið
og bað hann segja sér fyrir hverju vera mundi. Óspakur vildi eigi segja
honum fyrr en hann seldi honum grið. Bróðir hét honum griðum en Óspakur dró
þó undan allt til nætur því að Bróðir vó aldrei víg um nætur.
Fred and Grace Hatton
Hawley Pa