Brjánn hét konungur sá er hana hafði átta og voru þau þá skilin því að hann
var allra konunga best að sér. Hann sat í Kunnjáttaborg. Bróðir hans var
Úlfur hræða, hinn mesti kappi og hermaður. Fóstri Brjáns konungs hét
Kerþjálfaður. Hann var son Kylfis konungs þess er margar orustur átti við
Brján konung og stökk úr landi fyrir honum og settist í stein. En þá er
Brjánn konungur gekk suður þá fann hann Kylfi konung og sættust þeir þá. Tók
þá Brjánn konungur við syni hans Kerþjálfaði og unni meira en sínum sonum.
Hann var þá roskinn er þetta er tíðinda og var allra manna fræknastur.
Dungaður hét son Brjáns konungs en annar Margaður, þriðji Taðkur, þann
köllum vér Tann. Hann var þeirra yngstur en hinir eldri synir Brjáns konungs
voru frumvaxta og manna vasklegastir. Ekki var Kormlöð móðir barna Brjáns
konungs. En svo var hún orðin grimm Brjáni konungi eftir skilnað þeirra að
hún vildi hann gjarna feigan. Brjánn konungur gaf upp þrisvar útlögum sínum
hinar sömu sakar. En ef þeir misgerðu oftar þá lét hann dæma þá að lögum. Og
má af slíku marka hvílíkur konungur hann hefir verið.
Kormlöð eggjaði mjög Sigtrygg son sinn að drepa Brján konung. Sendi hún hann
af því til Sigurðar jarls að biðja hann liðs. Kom Sigtryggur konungur fyrir
jól til Orkneyja. Þar kom þá og Gilli jarl sem fyrr var ritað.
Svo var mönnum skipað að Sigtryggur konungur sat í miðju hásæti en til
sinnar handar konungi sat hvor jarlanna. Sátu menn þeirra Sigtryggs konungs
og Gilla jarls innar frá en utar frá Sigurði jarli sat Flosi og Þorsteinn
Síðu-Hallsson og var skipuð öll höllin.
Sigtryggur konungur og Gilli jarl vildu heyra tíðindi þau er gerst höfðu um
brennuna og svo síðan er hún varð. Þá var fenginn til Gunnar Lambason að
segja söguna og var settur undir hann stóll.