Flosi tók lítt á þeirra ferð og kvað þó eigi víst um hvort hér næmi staðar
"er Kári engum manni líkur þeim sem nú er á Íslandi."
152. kafli
Nú er að segja frá Birni og Kára að þeir ríða á sand og leiða hesta sína
undir melbakka og skáru fyrir þá melinn að þeir dæju eigi af sulti. Kári
varð svo nærgætur að hann reið þegar í braut er þeir hættu leitinni. Hann
reið um nóttina upp eftir héraðinu og síðan á fjall og svo alla hina sömu
leið sem þeir riðu austur og léttu eigi fyrr en þeir komu í Mið-Mörk.
Björn mælti þá til Kára: "Nú skalt þú vera vin minn mikill fyrir húsfreyju
minni því að hún mun engu orði trúa því er eg segi en mér liggur hér nú allt
við. Launa þú mér nú góða fylgd er eg hefi þér veitta."
"Svo skal vera," segir Kári.
Síðan riðu þeir heim á bæinn. Húsfreyja spurði þá tíðinda og fagnaði þeim
vel.
Björn svaraði: "Aukist hafa heldur vandræðin kerling."
Hún svarar fá og brosti að. Húsfreyja mælti þá: "Hversu gafst Björn þér
Kári?"
Hann svarar: "Ber er hver að baki nema sér bróður eigi og gafst Björn mér
vel. Hann vann á þremur mönnum en hann er þó sár sjálfur. Og var hann mér
hinn hallkvæmasti í öllu því er hann mátti."
Þar voru þeir þrjár nætur. Síðan riðu þeir í Holt til Þorgeirs og sögðu
honum einum saman tíðindin því að þangað höfðu eigi spurst tíðindin fyrr.
Þorgeir þakkaði Kára og fannst það á að hann varð þessu feginn. Hann spurði
Kára að hvað þá væri óunnið það er hann ætlaði að vinna.
Kári svarar: "Drepa ætla eg Gunnar Lambason og Kol Þorsteinsson ef færi
gefur á. Höfum við þá drepið fimmtán menn með þeim fimm er við drápum báðir
saman en þó vil eg nú biðja þig bænar," segir Kári.
Þorgeir kvaðst veita honum mundu það er hann beiddi
Fred and Grace Hatton
Hawley Pa