151. kafli

Kári spurði Björn: "Hvað skulum við nú til ráða taka? Skal eg nú reyna
vitsmuni þína."

Björn svaraði: "Hvort þykir þér undir því mest að við séum sem vitrastir?"

"Já," sagði Kári, "svo er víst."

"Þá er skjótt til ráða að taka," segir Björn. "Við skulum ginna þá alla sem
þursa og skulum við láta sem við munum ríða norður á fjall. En þegar er
leiti ber á milli vor þá skulum við snúa aftur og ofan með Skaftá og felast
þar sem okkur þykir vænlegast meðan leitin er sem áköfust ef þeir ríða
eftir."

Kári mælti: "Svo munum við gera og hafði eg þetta ætlað áður."

"Svo mun þér reynast," sagði Björn, "að eg mun ekki vera hjátækur í
vitsmunum eigi síður en í harðræðunum."

Þeir Kári riðu nú sem þeir höfðu ætlað ofan með Skaftá. Þá fellur áin sum í
austur en sum í landsuður. Sneru þeir þá ofan með miðkvíslinni og léttu eigi
fyrr en þeir komu í Meðalland og á mýri þá er Kringlumýri heitir. Þar er
hraun allt umhverfis.

Kári mælti þá við Björn að hann skyldi gæta hesta þeirra og vera á varðhaldi
"en mér gerir svefnhöfugt."

Björn gætti hestanna en Kári lagðist niður og svaf allskamma stund áður en
Björn vakti hann. Hann hafði þá leidda saman hestana og voru þar hjá þeim.

Björn mælti þá til Kára: "Allmjög þarft þú þó mín til. Mundi sá nú hafa
hlaupið í braut frá þér er eigi væri jafnvel hugaður sem eg er því að nú
ríða hér óvinir þínir að þér og skalt þú svo við búast."

Kári gekk þá undir hamarskúta nokkurn.

Björn mælti: "Hvar skal eg nú standa?"

Kári svarar: "Tveir eru nú kostir fyrir höndum. Sá er annar að þú standir að
baki mér og hafir skjöldinn að hlífa þér með ef þér kemur hann að nokkuru
gagni. Hinn er annar að þú stígir á hest þinn og ríðir undan sem þú mátt
mest."
Fred and Grace Hatton
Hawley Pa