Kom spjótið í skjöldinn og gekk þegar í gegnum og kom í lærið Grana fyrir
neðan smáþarmana og þar í gegnum og svo í völlinn og komst hann eigi af
spjótinu fyrr en félagar hans drógu hann af og bjuggu um hann í dæl nokkurri
með hlífum. Maður einn skaust að og ætlaði að höggva fót undan Kára og komst
á hlið honum. Björn hjó af þessum manni höndina og skaust aftur síðan að
baki Kára og fengu þeir honum engan geig gervan. Kári slæmdi til þessa manns
sverðinu og hjó hann í sundur í miðju. Þá hljóp Lambi Sigurðarson að Kára og
hjó til hans með sverði. Kári brá við flötum skildinum og beit sverðið ekki
á. Kári lagði til hans sverðinu framan í brjóstið svo að út gekk meðal
herðanna. Varð það hans bani. Þá hljóp að Kára Þorsteinn Geirleifsson og
ætlaði á hlið Kára. Hann fékk séð Þorstein og slæmdi til hans sverðinu um
þverar herðarnar svo að í sundur tók manninn. Litlu síðar hjó hann mann
banahöggi, Gunnar úr Skál, góðan bónda. Björn hafði særða þrjá menn þá er
ætlað höfðu til að vinna á Kára og var þó aldrei svo frammi að honum væri
nein raun í. Varð hann og ekki sár og hvorgi þeirra félaga á fundinum en
þeir voru allir sárir er undan komust. Hljópu þeir á hesta sína og hleyptu
út á Skaftá sem mest máttu þeir og urðu svo hræddir að þeir komu hvergi til
bæja og hvergi þorðu þeir að segja tíðindin. Þeir Kári æptu að þeim er þeir
hleyptu út á ána.
Björn mælti: "Rennið þér nú brennumenn," segir hann.
Þeir riðu austur í Skógahverfi og léttu eigi fyrr en þeir komu til
Svínafells. Flosi var ekki heima er þeir komu þar og varð því þaðan ekki
eftir leitað. Öllum þótti þeirra ferð hin svívirðlegasta. Kári reið í Skál
og lýsti þar vígum þessum á hendur sér. Sagði hann þar lát húsbónda og
þeirra fimm og sár Grana og kvað betra mundu að færa hann til húss ef hann
skyldi lifa. Björn mælti og kvaðst eigi nenna að drepa hann fyrir mágsemdar
sökum en kvað hann þó þess maklegan en þeir er svöruðu kváðu fá fúnað hafa
fyrir honum. Björn kvað nú kost vera að fúnuðu svo margir af Síðumönnum sem
hann vildi. Þeir sögðu þá þó ill að vera. Þeir Kári og Björn riðu þá í
braut.