Flosi svarar: "Eigi veit eg um sögur slíkar hvað satt er sagt um ferðir
Kára. Þykir mér það oft rjúfast er skemmra er að frétta en slíkt. Er það
mitt ráð að þér farið margir saman og skiljist lítt og verið um yður sem
varastir. Skalt þú nú og, Ketill úr Mörk, muna draum þann er eg sagði þér og
þú baðst að við skyldum leyna, því að margir eru þeir nú í för með þér er
kallaðir voru."

Ketill mælti: "Allt mun það sínu fram fara um aldur manna sem ætlað er fyrir
áður en gott gengur þér til vörunnar þinnar."

Töluðu þeir nú ekki um fleira. Síðan bjuggust þeir Sigfússynir og menn með
þeim þeir sem til voru ætlaðir. Voru þeir átján saman. Riðu þeir þá í braut.
Og áður en þeir fóru minntust þeir við Flosa. Hann bað þá vel fara og kvað
þá eigi mundu sjást oftar suma er í braut riðu en þeir létu eigi letjast.
Riðu þeir nú leið sína. Flosi mælti að þeir skyldu taka vöru hans í
Meðallandi og flytja austur og svo í Landbroti og í Skógahverfi.

Síðan ríða þeir til Skaftártungu og svo fjall og fyrir norðan
Eyjafjallajökul og ofan í Goðaland og svo ofan um skóga í Þórsmörk.

Björn úr Mörk gat séð mannareiðina og fór þegar til fundar við þá. Þar
kvöddu hvorir aðra vel. Sigfússynir spurðu að Kára Sölmundarsyni.

"Fann eg Kára," segir Björn, "og var það nú mjög fyrir löngu. Reið hann
þaðan norður á Gásasand og ætlaði hann norður á Möðruvöllu til Guðmundar
hins ríka og þótti mér nú sem hann mundi heldur óttast yður. Þóttist hann nú
mjög einmani."

Grani Gunnarsson mælti: "Meir skyldi hann þó síðar óttast oss. Mun hann svo
fremi vita að hann kæmi í kast við oss. Hræðumst vér hann nú alls ekki er
hann er einn síns liðs."

Ketill úr Mörk bað hann þegja og hafa engi stóryrði frammi. Björn spurði nær
þeir mundu aftur.

"Nær viku munum vér dveljast í Fljótshlíð," sögðu þeir, kváðu þá á dag fyrir
honum nær þeir mundu á fjall ríða. Skildu þeir við þetta. Riðu nú
Sigfússynir til búa sinna og urðu heimamenn þeirra þeim fegnir. Voru þeir
þar nær viku.

Fred and Grace Hatton
Hawley Pa